Menntunarstig hefur veruleg áhrif á lífslíkur Íslendinga, einkum kvenna, að því er nýjar íslenskar rannsóknir benda til. Sérstaka athygli vekur að konur sem fengið hafa litla menntun geta almennt gert ráð fyrir styttri lífslengd en langskólagengnar konur – og fer munurinn vaxandi. Þar munar orðið mörgum árum.

„Auðvitað spyr maður af hverju þetta er svona,“ segir Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, sem er einn þeirra sem unnu rannsóknina að tilhlutan Hjartaverndar.

Rannsóknin tók til sex þúsund þátttakenda sem voru flokkaðir eftir menntunarstigi, „og þá kom í ljós þetta bil á milli fólks,“ segir Thor, sem var gestur í nýjasta þætti af Vísindunum og okkur á Hringbraut þar sem fjallað er um fræðastörf vísindamanna innan skólans.

Thor telur svarið líklega felast í lífsstíl. „Rannsóknin leiðir í ljós að það er miklu meira um hjartasjúkdóma hjá fólki með litla menntun en hjá þeim sem hafa sótt sér meiri menntun,“ bendir Thor á – og telur að ætla megi að hinir meira menntuðu hafi meira svigrúm í lífinu.

Rannsóknin sýni fram á mikilvægi menntunar. „Það er eitthvað í henni sjálfri sem gerir fólk sterkara og hjálpar því við að viðhalda hreysti og lengja lífið fyrir vikið,“ segir Thor.

Tölur Hagstofunnar staðfesti þessa þróun, en þar er fylgst með fylgni menntunar og lífslengdar. „Þetta sést líka í sambærilegum erlendum rannsóknum. Við erum ekkert öðruvísi en aðrir hvað þetta varðar,“ segir Thor og telur fulla ástæðu til að hafa áhyggjur. „Það er ekki aðeins að bilið á milli kvenna með litla menntun og langa skólagöngu er að aukast hér á landi heldur sýnist okkur að það stefni í sömu átt hjá körlum.“

Samfélagið þurfi að læra af niðurstöðunum. „Þetta er auðvitað ekki sanngjarnt og fyrir vikið verðum við að leggja áherslu á að auka jöfnuð í samfélaginu,“ segir Thor.