Ríkisstjórnin samþykkti tillögur flóttamannanefndar á ríkisstjórnarfundi í dag sem fela í sér að taka á móti 120 Afgönum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir þetta fyrsta skref af mörgum í þessum málum.

„Þetta er fólk sem hefur verið að vinna fyrir Atlantshafsbandalagið og fjölskyldur þeirra. Eins fólk sem hefur verið í Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna og fjölskyldur þeirra. Við munum flýta fjölskyldusameiningum kjarnafjölskyldna sem eru hér á landi,“ segir Katrín.

Sérstakur aðgerðarhópur verður stofnaður til að skipuleggja móttöku og mun ríkisstjórnin beina því til flóttamannanefndar til að vinna áfram að þessum málum.

Bandaríkjaher hefur stjórn á svæðinu til 31. ágúst og er því ekki mikill tími til stefnu. Aðspurð hvort verið sé að taka á móti einstaklingum sem hafa ekki verið á launaskrá hjá NATO segir forsætisráðherra:

„Þetta er töluverð ringulreið en við reynum að leggja okkar af mörkum sem meðlimur í Atlantshafsbandalaginu að taka við hluta af þessu fólki. Flóttamannanefnd hefur forgangsraðað þrjá hópa og á það var fallist.“

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, fer með málefni flóttamanna.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Ringulreið á flugvellinum

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra Íslands, segir þó töluna viðmið vegna aðstæðna á flugvellinum.

„Við ráðgerum 120 en þetta er ekki nákvæmar tölur vegna aðstæðna í Afganistan. Það er engin eiginleg starfsemi á flugvellinum og það gæti verið erfitt að ná til fjölskyldnanna. Við vitum í rauninni ekki hversu stórar fjölskyldurnar eru hjá þeim einstaklingum sem voru í Jafnréttisskólanum,“ útskýrir ráðherrann.

„Þetta þarf að vinnast í samstarfi við utanríkisþjónustu annarra landa því það eru engar flugsamgöngur úr landinu nema í formi herflugvéla.“

Ásmundur segir að íslensk stjórnvöld muni leggja sitt af mörkum í samstarfi við nágrannaþjóðir en það sé undir einstaklingunum komið hvort þeir komist inn á flugvöllinn og um borð í vélarnar.

Tillögur flóttamannanefndar sem ríkisstjórnin samþykkti eru eftirfarandi:

  • Tekið verður á móti starfsfólki sem vann með og fyrir Atlantshafsbandalagið, ásamt mökum þeirra og börnum. Horft verður sérstaklega til þeirra sem störfuðu með íslensku friðargæslunni.  
  • Fyrrverandi nemendum frá Afganistan við jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, ásamt mökum og börnum, verður boðið til landsins.
  • Íslensk stjórnvöld munu aðstoða þá Afgana sem eiga rétt á fjölskyldusameiningu eða eru komnir nú þegar með dvalarleyfi hér á landi en geta ekki ferðast á eigin vegum að komast til landsins. Um er bæði að ræða einstaklinga sem hafa fjölskyldutengsl hér sem og einstaklingar sem hyggjast hefja hér nám.
  • Umsóknir um fjölskyldusameiningu, samkvæmt lögum um útlendinga, við Afgana búsetta hér landiverða settar í forgang og aukið við fjárveitingar til þess að hraða umsóknunum.

Íslendingar á leiðinni heim

Íslensk fjölskylda kom til landsins í fyrrinótt og er verið að vinna að því að koma hinum Íslendingunum heim. Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá var stjórnvöldum kunnugt um sjö Íslendinga í Kabúl eftir að Talíbanar tóku yfir höfuðborgina.

Tveir þeirra sinna stöfum fyrir stofnanir Atlantshafsbandalagsins í Afganistan og hins vegar hjón og börn þeirra. Unnið sé að því að flytja tvo sem sinna störfum fyrir Nato á brott með öðru liði Atlantshafsbandalagsins í landinu.