Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu segir að líklegustu áhrif stærsta fíkniefnafundar Íslandssögunnar muni sjást í breyttu verðlagi á kókaíni. Erfitt sé þó að meta hver áhrifin verði nákvæmlega í fljótu bragði. Von er á frekari upplýsingum um málið eftir helgi.

Markaðurinn orðinn mjög þróaður

Aðspurður segir Grímur að erfitt sé að segja til um önnur áhrif sem mögulega komi til vegna fundarins

„Við raunverulega höfum ekki treyst okkur til þess að meta það. Það er þá helst ef það verður einhver verðbreyting,“ segir Grímur en tíma taki fyrir slík áhrif að koma fram „ef þetta hefur einhver áhrif, svona haldlagning, að þá er eflaust hægt að sjá það best í verði þegar fram í sækir. En það sést ekki endilega einn, tveir og þrír.“

Grímur segir að mögulega sé fíkniefnamarkaðinum stýrt með þeim hætti að magni eins og þessu sé ekki endilega stefnt beint inn á markað heldur fremur látið koma inn í litlum skömmtum til að halda í núverandi verðlag.

„Kannski er markaðurinn það þróaður að þeir sem eru á honum og þeir sem stýra honum að þeir stýri magninu inn á hann,“ segir Grímur og bætir við „Þetta eru getgátur en þetta eru samt sem áður getgátur sem er allt í lagi að velta fyrir sér,“ segir hann.

Fundurinn kom til í gegnum forvirkar aðgerðir

Fundur kókaínsins er afrakstur samstarfs mismunandi lögregluliða hér á landi en einnig í gegnum erlent samstarf.

Voru þá viðhafðar það sem kallast forvirkar aðgerðir sem leiddu til fundarins á efninu í Hollandi fyrst um sinn.

Hvort um skipulagða glæpastarfsemi eða erlenda glæpahópa sé að ræða segir Grímur það ekki ljóst „Það er hluti af því sem við hjá lögreglunni reynum að varpa á hvort um sé að ræða skipulagða brotastarfsemi sem er ekki óeðlilegt að manni finnist koma til álita. Síðan hvort þetta sé samstarf íslenskra og erlendra aðila, það er heldur ekki óeðlilegt að svo sé,“ segir Grímur.

Meira en hundrað kíló af kókaíni fundust í vörusendingu nú snemma í ágúst en um stærstu haldlagningu af slíku efni í Íslandssögunni er að ræða.

Þrír voru í gær úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald vegna málsins en fjórði aðili málsins hefur verið færður í fangelsi vegna annara mála.