Bólu­setningar með bólu­efni AstraZene­ca munu halda á­fram hér á landi þrátt fyrir að Danir hafi tekið þá á­kvörðun um að hætta að nota bólu­efnið, að minnsta kosti um sinn, og Norð­menn skoði að gera slíkt hið sama, en Ís­land hefur vana­lega fylgt öðrum Norður­löndunum í slíkum málum.

Ís­land fylgdi til að mynda hinum Norður­löndunum þegar á­kveðið var að bíða með AstraZene­ca bólu­efnið í síðasta mánuði þegar verið var að skoða sjald­gæfar auka­verkanir í kjöl­far bólu­setningar. Í lok mars var á­kveðið að halda á­fram með bólu­setningar hjá ein­stak­lingum 70 ára og eldri.

Að sögn Þór­ólfs Guðna­sonar sótt­varna­læknis hefur nú verið tekin á­kvörðun um að ein­staklingar 65 ára og eldri verði bólu­settir með bólu­efni AstraZene­ca og er hugsan­legt að það verði fært niður í 60 ára og eldri hjá þeim sem eru ekki með undir­liggjandi blóð­sega eða blæðingar­vanda­mál.

Danir einnig hættir að nota Janssen

Bólu­efni Jans­sen er einnig til skoðunar vegna mögu­legra blóð­tappa­myndunar og hefur bólu­efnið verið sett tíma­bundið á bið hér­lendis en notkun þess hætt í Dan­mörku. Þór­ólfur greindi þó frá því að Danir muni geyma sitt bólu­efni og gætu hugsan­lega hafið notkun á því aftur síðar.

Að­spurður um hvort hann skilji á­kvörðun Dana um að hætta að nota bólu­efnin sagði Þór­ólfur að svo virðist sem blæðingar­vanda­mál séu al­gengari hjá Dönum og Norð­mönnum og að dauðs­föll séu al­gengari þar í landi.

„Ég gæti trúað því að þeir vildu ekki halda á­fram að nota bólu­efnið því það gæti komið ó­orði á bólu­setningar á­takið, gæti leitt af sér að fólk mundi ekki vilja mæta og svo fram­vegis, og þetta það hafi vegið þungt í þeirri á­kvörðunar­töku,“ sagði Þór­ólfur á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag.

Skynsamleg ákvörðun

Hann segist þó telja að ís­lensk yfir­völd hafi komist að skyn­sam­legri niður­stöðu og vísaði til þess að Sví­þjóð og Finn­land hafi einnig á­kveðið að halda á­fram að bólu­setja með AstraZene­ca bólu­efninu.

„Það er vert að hafa í huga að sjúklingar með COVID-19 fá líka blóðsega vandamál og það er talið að 20 til 30 prósent þeirra geti fengið slík vandamál. Það er talað um að 0,1 prósent almennings á öllum aldri í Bandaríkjunum fái blóðsegavandamál árlega og um 0,3 prósent kvenna sem eru taka getnaðarvarnapilluna fái blóðegavandamál,“ sagði Þórólfur.