„Ég get upplýst það að í þessu tilviki hefur verið ákveðið að skóla- og frístundasvið muni auka sérstaklega stuðning við þau börn sem hafa fundið fyrir einkennum í Fossvogsskóla og funda með foreldrum þeirra til að finna út hvað sé best að gera í hverju tilviki“, segir Skúli Helgason, formaður skóla-og frístundaráðs og fulltrúi Samfylkingarinnar í borgarstjórn.

Margir foreldrar barna sem enn eru veik hafa gagnrýnt að enginn hafi samband við þau eða haldi þeim upplýstum.

Skilur foreldrana

„Eðlilega eru foreldrar þeirra barna sem finna fyrir óþægindum ósáttir og sannarlega vonuðust allir til þess að þær umfangsmiklu aðgerðir sem ráðist hefur verið í, myndu duga til. Við erum einmitt að halda áfram aðgerðum til að koma til móts við óskir og sjónarmið þessara foreldra. Ég skil afar vel sjónarmið foreldranna enda vill enginn horfa upp á börn sín í aðstæðum þar sem þau finna fyrir vanlíðan,“ segir Skúli.

Varðandi samráð við foreldra þá sé það almennt verkefni skólanna sjálfra. Skóla- og frístundasvið hefur samráð við skólaráðið þar sem eru stjórnendur skólans og fulltrúar foreldra, nemenda og starfsfólks og það hefur verið yfirgripsmikið og reglulegt í þessu máli, að sögn Skúla.

Munum bregðast hratt við

„Ég tel að skýrslan Verkís um ástandið í Fossvogsskóla sýni fram á að enn er verk að vinna og við munum bregðast hratt og vel við því. Vinna á grundvelli þessara niðurstaðna skýrslu Verkís fer í gang strax í dag, m.a. við að þrífa, loka á milli rýma og þar með fyrir loftflæði á milli þakhluta, yfirfara rakasperru í þaki o.s.frv. Sú vinna á að klárast á allra næstu vikum,“ að sögn Skúla.

„Lykilatriði í þessu máli er að vinna þetta áfram með foreldrum og starfsfólki, hlusta á þeirra sjónarmið og taka þau alvarlega.“

Skúli bendir á að húsnæðið ásamt búnaði hafi farið í gegnum allsherjar endurnýjun síðustu tvö ár. „Sú vinna hefur skilað árangri en þó ekki svo fullnægjandi sé. Við vonumst til að aðgerðir næstu daga skili sér á þann hátt að enginn finni fyrir einkennum,“ segir Skúli.

Umfangsmiklar endurbætur

„Þetta hefur verið mjög sérstakt ferli. Það kom upp grunur um myglu og rakaskemmdir sem kallaði á mjög umfangsmiklar endurbætur á húsnæði skólans. Þær hafa staðið yfir í nær tvö ár og hafa útheimt mikla vinnu og fjármuni. Kosturinn við þetta er sá að það er búið að gera skólann upp að stórum hluta svo húsnæðið er nú almennt í miklu betra ásigkomulagi. Hins vegar eru um 10 börn sem fundið hafa fyrir einkennum og vanlíðan sem talin eru tengjast húsnæðinu og við því þarf að bregðast,“ bætir Skúli við.

Aðgerðir komandi daga munu snúa að því að bregðast við niðurstöðum síðustu sýnatökunnar í desember og á meðal annar að loka rakasperru í þaki og hreinsa svæðin þar sem myglugró fundust, samkvæmt svari Skúla Helgasonar.