Skimanir fyrir brjóstakrabbameini munu ekki falla niður og ekkert rof verður á þjónustu við þá sem þurfa á þeim að halda. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef heilbrigðisráðuneytisins í dag.

Unnið er að breytingum á fyrirkomulagi skimunar fyrir bæði legháls- og brjóstakrabbameini fyrir árslok þessa árs. Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri eiga þá að sjá um skimanirnar en Krabbameinsfélagið sér nú um þær.

Krabbameinsfélagið hafði lýst yfir áhyggjum af því að skimanirnar myndu falla niður í að minnsta kosti fjóra mánuði frá næstu áramótum vegna tafa á afhendingu tækni- og tækjabúnaðar sem er nauðsynlegur til að sinna þjónustunni á spítölunum.

Landspítalinn hafði óskað eftir því að flutningi skimananna yrði því frestað til 1. maí. „Fari svo að ekki takist að tryggja framkvæmd brjóstaskimana með aðkomu annars aðila en LSH frá árslokum 2020 til 1. maí mun Landspítali tryggja að konum standi til boða, hér eftir sem hingað til, góð og örugg þjónusta,“ segir í tilkynningunni.