Öldungadeild Bandaríkjanna mun koma aftur saman síðar í dag til að hlusta á málflutning í máli Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, en Trump er ákærður til embættismissis fyrir að hvetja til uppreisnar í tengslum við óeirðirnar við bandaríska þinghúsið þann 6. janúar síðastliðinn.
Fulltrúadeildarþingmennirnir sem fara fyrir málinu gegn Trump greindu frá því fyrr í dag að þeir komi til með að sýna áður ósýnd myndbönd frá óeirðunum sem náðust af öryggismyndavélum við þinghúsið. Ekki liggur fyrir hvað myndböndin sýna en annað myndband var sýnt í gær.
Rökrætt um ábyrgð Trumps
Næstu daga munu fulltrúadeildarþingmennirnir sem fara fyrir málinu og lögmenn Trumps hafa sextán klukkustundir til málflutnings en málið hófst formlega innan öldungadeildarinnar í gær þar sem meirihluti þingmanna, 56 gegn 44, greiddu atkvæði um hvort réttarhöldin væru í samræmi við stjórnarskrána.
Þingmennirnir sem fara fyrir málinu halda því fram að Trump beri ábyrgð á óeirðunum þar sem hann hvatti stuðningsmenn sína til að arka að þinghúsinu, þar sem verið var að fara yfir atkvæði kjörmanna til forseta, og mótmæla. Þá segja þeir að ítrekaðar tilraunir Trumps til að fá úrslitum forsetakosninganna snúið hafi leitt til óeirðanna.
Lögmenn Trumps aftur á móti halda því fram að það sé ekki í takt við stjórnarskrá Bandaríkjanna að ákæra almennan borgara til embættismissis en Trump lét af embætti í janúar. Þá halda þeir því fram að ummæli Trumps þann 6. janúar hafi ekki talist sem hvatning til uppreisnar og að hann beri ekki ábyrgð á aðgerðum stuðningsmanna sinna.
Ólíklegt að Trump verði sakfelldur
Líkt og áður segir hófst málið gegn Trump formlega innan öldungadeildarinnar í gær þar sem málið var kynnt fyrir þingmönnum. Bruce Castor og David Schoen, lögmenn Trumps, fengu slæma útreið eftir gærdaginn en þeir virtust óundirbúnir og óhnitmiðaðir í máli sínu, líklega þar sem aðeins vika er síðan þeir tóku við málinu, og er ljóst að þeir eiga erfitt verk fyrir höndum.
Það er þó mjög ólíklegt að Trump verði sakfelldur innan deildarinnar en til þess þurfa tveir þriðju þingmanna, 67, að samþykkja ákærurnar. Í ljósi atkvæðagreiðslunnar í gær og ummæla Repúblikana um að málið sé ekki í samræmi við stjórnarskrána er ljóst að Trump nýtur enn talsverðs stuðnings.
NEWS: The House impeachment managers plan to introduce never-before-seen footage of the Capitol riots today, the first formal day of arguments. Videos could be drawn from Capitol security cameras & other sources showing “extreme violence.” w/ @kyledcheneyhttps://t.co/UyBlydJ0Sp
— Andrew Desiderio (@AndrewDesiderio) February 10, 2021