Öldunga­deild Banda­ríkjanna mun koma aftur saman síðar í dag til að hlusta á mál­flutning í máli Donalds Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seta, en Trump er á­kærður til em­bættis­missis fyrir að hvetja til upp­reisnar í tengslum við ó­eirðirnar við banda­ríska þing­húsið þann 6. janúar síðast­liðinn.

Full­trúa­deildar­þing­mennirnir sem fara fyrir málinu gegn Trump greindu frá því fyrr í dag að þeir komi til með að sýna áður ó­sýnd mynd­bönd frá ó­eirðunum sem náðust af öryggis­mynda­vélum við þing­húsið. Ekki liggur fyrir hvað mynd­böndin sýna en annað mynd­band var sýnt í gær.

Rökrætt um ábyrgð Trumps

Næstu daga munu full­trúa­deildar­þing­mennirnir sem fara fyrir málinu og lög­menn Trumps hafa sex­tán klukku­stundir til mál­flutnings en málið hófst form­lega innan öldunga­deildarinnar í gær þar sem meiri­hluti þing­manna, 56 gegn 44, greiddu at­kvæði um hvort réttar­höldin væru í sam­ræmi við stjórnar­skrána.

Þing­mennirnir sem fara fyrir málinu halda því fram að Trump beri á­byrgð á ó­eirðunum þar sem hann hvatti stuðnings­menn sína til að arka að þing­húsinu, þar sem verið var að fara yfir at­kvæði kjör­manna til for­seta, og mót­mæla. Þá segja þeir að í­trekaðar til­raunir Trumps til að fá úr­slitum for­seta­kosninganna snúið hafi leitt til ó­eirðanna.

Lög­menn Trumps aftur á móti halda því fram að það sé ekki í takt við stjórnar­skrá Banda­ríkjanna að á­kæra al­mennan borgara til em­bættis­missis en Trump lét af em­bætti í janúar. Þá halda þeir því fram að um­mæli Trumps þann 6. janúar hafi ekki talist sem hvatning til upp­reisnar og að hann beri ekki á­byrgð á að­gerðum stuðnings­manna sinna.

Ólíklegt að Trump verði sakfelldur

Líkt og áður segir hófst málið gegn Trump form­lega innan öldunga­deildarinnar í gær þar sem málið var kynnt fyrir þing­mönnum. Bruce Ca­stor og David Schoen, lög­menn Trumps, fengu slæma út­reið eftir gær­daginn en þeir virtust ó­undir­búnir og ó­hnit­miðaðir í máli sínu, lík­lega þar sem að­eins vika er síðan þeir tóku við málinu, og er ljóst að þeir eiga erfitt verk fyrir höndum.

Það er þó mjög ó­lík­legt að Trump verði sak­felldur innan deildarinnar en til þess þurfa tveir þriðju þing­manna, 67, að sam­þykkja á­kærurnar. Í ljósi at­kvæða­greiðslunnar í gær og um­mæla Repúblikana um að málið sé ekki í sam­ræmi við stjórnar­skrána er ljóst að Trump nýtur enn talsverðs stuðnings.