Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, segist að sumu leyti geta tekið undir þá gagn­rýni sem fram­kvæmd brott­flutning fimm manna fjöl­skyldu frá Írak að­fara­nótt fimmtu­dags hefur sætt. Hún segir mikil­vægt að kafa ofan í fram­kvæmdina til þess að geta dregið lær­dóm af henni.

Katrín segir að mál­efni flótta­mannanna fimmtán hafi verið rætt á ríkis­stjórnar­fundi í morgun og dóms­mála­ráð­herra lagt fram minnis­blað þar sem farið var yfir fram­kvæmdina og hvort flutningurinn rími við lög og reglur þegar kemur að réttindum fatlaðs fólks.

„Og eðli­lega hefur fram­kvæmdin vakið spurningar, ekki síst hvað varðar mál­efni fatlaðs ein­stak­lings sem var þarna fluttur. Það verður farið nánar yfir þau at­riði sem varða flutning á þessum fatlaða ein­stak­lingi, hvað varðar réttinda­gæslu­menn, og þetta verður til á­fram­haldandi skoðunar. En það er eðli­legt að fólk bregði við að sjá þessa fram­kvæmd og spyrji gagn­rýnna spurninga,“ segir Katrín. Þetta sé flókið og lög­reglan ekki öfunds­verð af þessu verk­efni.

Í fjöl­miðlum í gær sagði Katrín að mál­efni fatlaða mannsins yrði sett í skoðun um það hvort rétt hafi verið staðið að flutningum. Að­spurð um hvort það sé komið í ferli segir Katrín það ekki á borði ráðu­neytis síns.

„Það er í rauninni fé­lags­mála­ráðu­neyti sem fer með mál­efni fatlaðra og þau eru í sam­skiptum við dóms­mála­ráðu­neytið og lög­regluna að afla sér frekari upp­lýsinga, til dæmis varðandi réttinda­gæslu­mennina,“ segir Katrín.

„Við erum með lög og reglur sem gera ráð fyrir því að ekki öll sem hingað koma fái já­kvæð svör og það er auð­vitað bara staðan og sá laga­rammi sem við byggjum á sem hefur verið í mikilli sam­stöðu. Og ég hef ekki séð beinar til­lögur um að breyta því. Við erum með kerfi og það er ætlast til þess að það kerfi veiti öllum rétt­láta máls­með­ferð og mál hvers einasta manns sé skoðað út frá ein­stak­lings­bundnum að­stæðum,“ segir Katrín.

Allir fimm­tán ein­staklingar sem vísað var úr landi að­fara­nótt fimmtu­dags hafi fengið nei­kvæð svör eftir að hafa farið í gegnum Út­lendinga­stofnun og kæru­nefnd út­lendinga­mála.

„Þau hafa ein­hver þeirra óskað eftir endur­upp­töku, önnur bíða úr­lausna dóm­stóla, en sam­kvæmt þessum sömu lögum frestar það ekki réttar­á­hrifum,“ segir Katrín, og bætir við:

„Hvað varðar fram­kvæmdina get ég tekið undir að sumu leyti þessa gagn­rýni sem hefur komið fram, en við erum auð­vitað að kafa ofan í hana til þess að geta dregið lær­dóm af henni,“ segir Katrín.