Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segist að sumu leyti geta tekið undir þá gagnrýni sem framkvæmd brottflutning fimm manna fjölskyldu frá Írak aðfaranótt fimmtudags hefur sætt. Hún segir mikilvægt að kafa ofan í framkvæmdina til þess að geta dregið lærdóm af henni.
Katrín segir að málefni flóttamannanna fimmtán hafi verið rætt á ríkisstjórnarfundi í morgun og dómsmálaráðherra lagt fram minnisblað þar sem farið var yfir framkvæmdina og hvort flutningurinn rími við lög og reglur þegar kemur að réttindum fatlaðs fólks.
„Og eðlilega hefur framkvæmdin vakið spurningar, ekki síst hvað varðar málefni fatlaðs einstaklings sem var þarna fluttur. Það verður farið nánar yfir þau atriði sem varða flutning á þessum fatlaða einstaklingi, hvað varðar réttindagæslumenn, og þetta verður til áframhaldandi skoðunar. En það er eðlilegt að fólk bregði við að sjá þessa framkvæmd og spyrji gagnrýnna spurninga,“ segir Katrín. Þetta sé flókið og lögreglan ekki öfundsverð af þessu verkefni.
Í fjölmiðlum í gær sagði Katrín að málefni fatlaða mannsins yrði sett í skoðun um það hvort rétt hafi verið staðið að flutningum. Aðspurð um hvort það sé komið í ferli segir Katrín það ekki á borði ráðuneytis síns.
„Það er í rauninni félagsmálaráðuneyti sem fer með málefni fatlaðra og þau eru í samskiptum við dómsmálaráðuneytið og lögregluna að afla sér frekari upplýsinga, til dæmis varðandi réttindagæslumennina,“ segir Katrín.
„Við erum með lög og reglur sem gera ráð fyrir því að ekki öll sem hingað koma fái jákvæð svör og það er auðvitað bara staðan og sá lagarammi sem við byggjum á sem hefur verið í mikilli samstöðu. Og ég hef ekki séð beinar tillögur um að breyta því. Við erum með kerfi og það er ætlast til þess að það kerfi veiti öllum réttláta málsmeðferð og mál hvers einasta manns sé skoðað út frá einstaklingsbundnum aðstæðum,“ segir Katrín.
Allir fimmtán einstaklingar sem vísað var úr landi aðfaranótt fimmtudags hafi fengið neikvæð svör eftir að hafa farið í gegnum Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála.
„Þau hafa einhver þeirra óskað eftir endurupptöku, önnur bíða úrlausna dómstóla, en samkvæmt þessum sömu lögum frestar það ekki réttaráhrifum,“ segir Katrín, og bætir við:
„Hvað varðar framkvæmdina get ég tekið undir að sumu leyti þessa gagnrýni sem hefur komið fram, en við erum auðvitað að kafa ofan í hana til þess að geta dregið lærdóm af henni,“ segir Katrín.