Innlent

Munu sækja tjón sitt vegna friðunar

Minjastofnun dró í gær til baka tillögu sína um að stækka friðlýst svæði í Víkurgarði. Framkvæmdaaðili á Landsímareitnum telur sig þó hafa orðið fyrir tjóni og hyggst leita réttar síns. Óvissu létt segir Dagur B.

FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Minjastofnun féll í gær frá tillögu sinni um að stækka friðlýst svæði í Víkurgarði. Var það gert eftir tillögu framkvæmdaaðila Landsímareitsins, Lindarvatns, um að breyta inngöngum í kringum svæðið. Framkvæmdastjóri Lindarvatns segir að félagið sé með þessu ekki að afsala sér neinum rétti til bóta vegna tjóns af skyndifriðun.

Minjastofnun skyndifriðaði Víkurgarð í byrjun janúar og hafði ráðherra sex vikur til að fallast á eða fella niður friðunina. Í máli stjórnenda Lindarvatns kom fram að þeir teldu skilyrði fyrir friðun óuppfyllt.

Í yfirlýsingu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu segir að Víkurgarður fái þann virðingarsess sem honum ber sem „einn merkasti minjastaður þjóðarinnar“. Þar verði opið almenningsrými þar sem saga garðsins fær notið sín. Skilið verði milli garðsins og hótelsins sem er að rísa. Garðurinn sé aldursfriðaður og þar megi engu raska eða breyta nema með samþykki Minjastofnunar

„Þetta var okkar tillaga og með henni erum við að koma til móts við sjónarmið Minjastofnunar um að vernda Víkurgarð eins og hann birtist á uppdráttum. En þetta er ásættanlegt að byggingaráform halda áfram með þeim breytingum sem við höfum gert á inngöngum,“ segir Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns.

„Við erum ekki í þessu til að standa í deilum heldur til að klára uppbyggingu á svæðinu. Þetta er því lausn sem kemur til móts við alla sem eiga hagsmuna að gæta í málinu,“ segir Jóhannes.

Aðspurður hvort Lindarvatn muni sækja það tjón sem það varð fyrir vegna friðunarinnar segir hann svo vera. „Með þessu samkomulagi er Lindarvatn ekki að afsala sér neinum rétti til bóta. Skyndifriðunin tafði framkvæmdir og það er næsta mál á dagskrá að skoða í hverju tjónið liggur. Það mun verða sótt af fullum þunga,“ segir Jóhannes.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir jákvætt að óvissunni um mikilvæga andlitslyftingu svæðisins í heild sé eytt.

„Mér finnst jákvætt ef komin er sátt um verkefnið og það að Víkurgarður verði lifandi almenningssvæði þar sem sögunni verður gert hátt undir höfði.“ 

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Bóka­út­gef­endum blöskrar hljóð­bóka­sprenging

Innlent

Lilja lítur fjarvistir alvarlegum augum

Innlent

Hættir sem for­maður: „LÍV og VR hafa ekki átt sam­leið“

Auglýsing

Nýjast

Örlög Karadzic ráðast í dag

Á­rásar­maðurinn undir­búið árás á þriðja skot­markið

Vill að heims­byggðin berjist gegn ras­isma

Grunsamlegur maður kíkti inn í bifreiðar

Gul viðvörun norðvestantil í dag

Brexit gæti tafist um allt að tvö ár

Auglýsing