Mat­væla- og lyfja­eftir­lit Banda­ríkjanna, FDA, reynir nú að flýta fyrir með­ferð bólu­efnis Moderna gegn CO­VID-19 en banda­rísk yfir­völd fengu í síðustu viku neyðar­heimild fyrir notkun bólu­efnis Pfizer og BioN­Tech og hófust bólu­setningar þar í landi síðast­liðinn mánu­dag.

Stjórn­skipuð eftir­lits­nefnd skilaði í gær ein­róma á­liti sínu um bólu­efni Moderna og var niður­staða nefndarinnar sú að á­vinningur bólu­setningar væri meiri en mögu­legar hættur bólu­efnisins. Yfir­maður FDA, Stephen Han, greindi í kjöl­farið frá því að eftir­litið myndi hafa hraðar hendur til að sam­þykkja bólu­efnið.

Banda­ríkin hafa komið sér­stak­lega illa út úr far­aldrinum en Banda­ríkin eru nú með lang­flest til­felli, dauðs­föll og spítala­inn­lagnir á heims­vísu og heldur staðan á­fram að versna. Eins og staðan er í dag hafa rúm­lega 17,2 milljón manns greinst með veiruna og rúm­lega 310 þúsund látist eftir að hafa smitast.

Gætu fengið sex milljón skammta strax

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið hafa Banda­ríkin samið um kaup á 200 milljón skömmtum af bólu­efni Moderna en um sex milljón skammtar gætu verið fluttir til Banda­ríkjanna strax og FDA hefur veitt Moderna neyðar­heimild. Ef miðað er við ferlið í kringum bólu­efni Pfizer má gera ráð fyrir að neyðar­heimild liggi mögu­lega fyrir í dag.

Ó­líkt bólu­efni Pfizer, sem þarf að geymast í miklu frosti, þarf bólu­efni Moderna að­eins að geymast í 20 gráðu frosti og því ein­faldara að dreifa bólu­efninu. Þá hafa rann­sóknir sýnt að meiri virkni sé í bólu­efni Moderna, eða um 95 prósent, en gefa þarf tvo skammta af bólu­efninu með fjögurra vikna milli­bili.

Banda­ríkin gætu verið fyrst til að sam­þykkja notkun bólu­efnis Moderna en aðrar þjóðir eiga enn eftir að taka á­kvörðun um það. Í Evrópu hefur enn sem komið er ekkert bólu­efni verið sam­þykkt en gert er ráð fyrir að Lyfja­stofnun Evrópu muni taka á­kvörðun um bólu­efni Pfizer í næstu viku og síðan bólu­efni Moderna um miðjan janúar.