Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir að flokkurinn muni hlíta boðum og bönnum Grafarvogskirkju vegna skiltamerkinga flokksins í gluggum kjallara kirkjunnar.
Flokkurinn leigir kjallarann og nýtir sem kosningaskrifstofu sína vegna Alþingiskosninga. Guðrún Karls Helgudóttir, sóknaprestur og Anna Guðrún Sigurvinsdóttir, formaður sóknarnefndar, segja báðar við Vísi að flokknum hafi ekki verið heimilt að setja upp slíkar merkingar á kirkjuna.
Inga segir í samtali við Fréttablaðið að merkingarnar standi enn uppi. Þær verði þó teknar niður ef beðið verði um það. Hún segir að sér þyki merkilegri frétt að kirkjur landsins þurfi að leiga út húsnæði sitt. Blaðið náði ekki tali af forsvarsmönnum kirkjunnar við vinnslu fréttarinnar.

„Við förum nú ekki að vaða í merkingarnar og fjarlæga þær án þess að þurfa. En ef svo ber undir munum við að sjálfsögðu gera það,“ segir Inga. Hún fagnar umfjölluninni en tekur fram að flokkurinn fari að öllu í samráði við leigusalann.
„Ef eitthvað er ekki alveg eins og það á að vera þá verður það bara lagað,“ segir Inga. Flokkur fólksins sé stjórnmálaflokkur sem hafi verið vitað. „Við erum hófleg í utanhúsmerkingum og erum ekki á fjölförnum stað þannig lagað séð en við gerum ekkert sem að okkar góðu leigusalar eru ekki glaðir með.“
Aðspurð viðurkennir Inga að ekki margir stjórnmálaflokkar hafi sínar höfuðstöðvar í kirkju. „En hinsvegar var þetta bara húsnæði sem var til leigu. Áður var þarna bókasafn og svo var þarna einu sinni lítið kaffihús niðri sem hét Sæla,“ segir Inga.
Hún segir flokksmenn gríðarlega þakkláta fyrir húsnæðið. „En fréttin er kannski frekar sú, af hverju þurfa kirkjurnar okkar að vera að leigja frá sér húsnæðið sitt? Vegna þess að það eru næstum allar kirkjur, hvort sem það er undir dansskennslu eða hvað það er, sem þurfa að leiga húsnæði eða einhvern hluta af því.“
