Inga Sæ­land, for­maður Flokks fólksins, segir að flokkurinn muni hlíta boðum og bönnum Grafar­vogs­kirkju vegna skilta­merkinga flokksins í gluggum kjallara kirkjunnar.

Flokkurinn leigir kjallarann og nýtir sem kosninga­skrif­stofu sína vegna Al­þingis­kosninga. Guð­rún Karls Helgu­dóttir, sókna­prestur og Anna Guð­rún Sigur­vins­dóttir, for­maður sóknar­nefndar, segja báðar við Vísi að flokknum hafi ekki verið heimilt að setja upp slíkar merkingar á kirkjuna.

Inga segir í sam­tali við Frétta­blaðið að merkingarnar standi enn uppi. Þær verði þó teknar niður ef beðið verði um það. Hún segir að sér þyki merki­legri frétt að kirkjur landsins þurfi að leiga út hús­næði sitt. Blaðið náði ekki tali af for­svars­mönnum kirkjunnar við vinnslu fréttarinnar.

Merkingarnar er að finna fyrir neðan skilti Grafarvogskirkju og í kjallaragluggum kirkjunnar.
Fréttablaðið/Eyþór

„Við förum nú ekki að vaða í merkingarnar og fjar­læga þær án þess að þurfa. En ef svo ber undir munum við að sjálf­sögðu gera það,“ segir Inga. Hún fagnar um­fjölluninni en tekur fram að flokkurinn fari að öllu í sam­ráði við leigu­salann.

„Ef eitt­hvað er ekki alveg eins og það á að vera þá verður það bara lagað,“ segir Inga. Flokkur fólksins sé stjórn­mála­flokkur sem hafi verið vitað. „Við erum hóf­leg í utan­hús­merkingum og erum ekki á fjöl­förnum stað þannig lagað séð en við gerum ekkert sem að okkar góðu leigu­salar eru ekki glaðir með.“

Að­spurð viður­kennir Inga að ekki margir stjórn­mála­flokkar hafi sínar höfuð­stöðvar í kirkju. „En hins­vegar var þetta bara hús­næði sem var til leigu. Áður var þarna bóka­safn og svo var þarna einu sinni lítið kaffi­hús niðri sem hét Sæla,“ segir Inga.

Hún segir flokks­menn gríðar­lega þakk­láta fyrir hús­næðið. „En fréttin er kannski frekar sú, af hverju þurfa kirkjurnar okkar að vera að leigja frá sér hús­næðið sitt? Vegna þess að það eru næstum allar kirkjur, hvort sem það er undir dans­s­kennslu eða hvað það er, sem þurfa að leiga hús­næði eða ein­hvern hluta af því.“

Kirkjunnar menn eru ekki sáttir og Inga segir ekkert verða gert í óþökk þeirra.
Fréttablaðið/Eyþór