Skólastjórn Fossvogsskóla hefur sent foreldra barna í fyrsta til sjöunda bekkjar skólans, yfirlýsingu eftir fund sem haldinn var seinni partinn í gær um húsnæði Fossvogsskóla. Í yfirlýsingunni stendur m.a. að í niðurstöðu skýrslu Verkís á sýnum sem tekin voru í lok árs í fyrra hafi komið í ljós óeðlilegur mygluvöxtur. Undir bréfið ritar skólastjóri Fossvogsskóla, Ingibjörg Ýr Pálmadóttir.

Fylgst reglulega með börnunum

Þar segir að aðgerðir hefjist á komandi dögum og eiga að taka stuttan tíma og fylgst verði náið með líðan barnanna.

„Í kjölfar framkvæmda verður ráðist í ítarlega hreingerningu þar sem þess er þörf. Þá verða tekin sýni í lok skólaárs til að ganga úr skugga um að framkvæmdir hafi skilað tilætluðum árangri. Samráð verður haft við skólaráð Fossvogsskóla um framgang máls. Skóla- og frístundasvið og Fossvogsskóli sjá til þess að fylgst verður reglulega með líðan þeirra barna sem sérstakar áhyggjur eru af,“ stendur í bréfinu til foreldranna.

Gefur ekki tilefni til bjartsýni

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa hátt í tíu börn verið veik vegna myglunnar sem mun vera mest í vesturhluta skólans. Eitt foreldri sagði yfirlýsingu hafa valdið sér veruleg vonbrigðum.

„ Ítrekað hefur okkur verið sagt að allt sé í lagi og ítrekað höfum við bent á að svo sé ekki. Þá er það ekki merki um bætta upplýsingagjöf að foreldrar lásu um þennan fund og niðurstöður hans í fjölmiðlum. Ekkert hefur heyrst í skólastjórnendum svo mánuðum skiptir og upplifunin er sú að hagsmunir barnanna og starfsfólks í skólanum séu hvergi í fyrirrúmi." sagði foreldri sem vildi ekki láta nafn síns getið.

Foreldrum var ekki tilkynnt um fundinn í gær og ekki hefur verið gefið upp hvort fundað verði með þeim um efni hans.


Yfirlýsingin er hér í heild sinni:

Í framhaldi af framkvæmdum sumarið 2020 var farið í sýnatöku í kennsluhúsnæði skólans, í loftsíum og rýmum ofan millilofta í Vesturlandi í lok ársins. Sýnin voru send í ræktun og í tegundagreiningu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og hefur Verkís tekið saman greinargerð um niðurstöðurnar sem birt verður á næstu dögum. Niðurstöður voru kynntar og ræddar á fundi skólaráðs Fossvogsskóla síðdegis í gær. Á fundinum voru auk skólaráðsins, fulltrúar skóla- og frístundasviðs, umhverfis- og skipulagssviðs, fulltrúi Verkís, SAMFOK, félags grunnskólakennara og ráðgjafi foreldrafélagsins.

Hluti sýnanna sem tekin voru í lok árs sýndi óeðlilegan vöxt á nokkrum stöðum. Fulltrúi umhverfis- og skipulagssviðs fór yfir verkáætlun vegna þessa og liggur fyrir að aðgerðir hefjast á komandi dögum og eiga þær að taka stuttan tíma. Í kjölfar framkvæmda verður ráðist í ítarlega hreingerningu þar sem þess er þörf. Þá verða tekin sýni í lok skólaárs til að ganga úr skugga um að framkvæmdir hafi skilað tilætluðum árangri. Samráð verður haft við skólaráð Fossvogsskóla um framgang máls. Skóla- og frístundasvið og Fossvogsskóli sjá til þess að fylgst verður reglulega með líðan þeirra barna sem sérstakar áhyggjur eru af.

Á síðastliðnum tveimur árum hafa yfirgripsmiklar viðgerðir farið fram á skólahúsnæði Fossvogsskóla. Innivistin hefur verið bætt með endurnýjun þaka og lofta, loftræstikerfa, gólfefna og málun í skólanum. Þá hefur allur skólinn verið þrifinn hátt og lágt og margvíslegar endurbætur verið gerðar á búnaði, húsgögnum, bókakosti og fleiru.

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og skólaráð Fossvogsskóla er einhuga um að tryggja þurfi að húsnæði og aðstaða til skóla- og frístundastarfs veiti fullnægjandi umgjörð um metnaðarfullt starf og stuðli að heilbrigði og vellíðan barna og starfsmanna, líkt og segir í Menntastefnu Reykjavíkurborgar.