Sigríður Björnsdóttir sérgreinadýralæknir hrossa hjá MAST segir að stofnunin hafi engin ráð til þess að koma hrossum í umsjá annars aðila þegar þau eru í slæmu ásigkomulagi eins og hrossin sem voru aflífuð í gær á Vesturlandi. Eins og fram kom í morgun voru þrettán hross aflífuð á bænum en mikið hefur verið fjallað um dýrin undanfarin mánuð og nágrannar margir tilkynnt vanrækslu á dýrunum.
Þau hross sem voru í ásættanlega ásigkomulagi fóru aftur til umsjáraðila. Af þeim eru tíu sem þurfa sérstakt eftirlit.
„Það verða að vera fagleg rök fyrir því að vörslusvipta. Það er ekki í lagi að vörslusvipta dýr sem eru í lagi,“ segir Sigríður spurð af hverju dýrunum var skilað í umsjá umsjáraðila eftir að þrettán öðrum var slátrað.
En þegar það er fordæmi og skýrar vísbendingar um að umönnun verði ekki í lagi, eins og er þarna?
„Nei, það er ekki heimilt. En við getum haft eftirlit, og það er hægt að tryggja þetta með eftirliti.“
En hvers vegna var það ekki gert áður en þið þurftuð að aflífa þrettán hross?
„Það var gert,“ segir hún og að hún skilji ekki hvað blaðamaður meinar nákvæmlega.
Var eftirlitið fullnægjandi þegar þetta endar svona?
„Já, vegna þess að hrossin voru raunverulega í sama ástandi og þegar þau koma fyrst til okkar kasta. Þau hafa ekki versnað í holdafari en ekki öll bætt sig eins og vonir stóðu til,“ segir hún og þegar komið er að þessum árstíma hafi ekki verið hægt að gera annað en að senda þau í sláturhús.
Spurð um þau tíu hross sem eru enn í viðkvæmu ástandi segir hún að þau séu undir eftirliti MAST en hjá umráðamanni og að í eftirlitinu felist mælingar á holdafari og heimsóknir.
„Holdafar breytist ekki gríðarlega hratt á hrossum en við munum fylgjast með vikulega,“ segir Guðrún Sigríður.


Hefðu ekki lifað úti í vetur
Hún segir að hrossin sem voru aflífuð hafi ekki verið þannig vannærð að þau hafi þurft sérstaka meðferð eða matvæli en að samt hafi ekki verið hægt að komast hjá því að aflífa þau.
„Það er komið svo fram á haustið og þau ekki náð þeim bata sem vonast var til og þau ekki getað lifað úti í vetur og ekki hægt að loka þau inni.“
Og það mátti ekki flytja þau eitthvert annað þar sem einhver hefði hugsað um þau?
„Það hefði ýmislegt verið hægt en það er búið að reyna ákveðin úrræði til að tryggja bata, sem ekki gekk eftir. Það er enginn annar að fara að halda þessi hross.“
Þannig það eru engin úrræði hjá stofnuninni?
„Nei, það eru engin úrræði. Matvælastofnun heldur ekki hross, eða annað búfé. Við erum með þennan tveggja daga glugga til vörslusviptingar og þau sem eru sláturdýr í eðli sínu fara þangað.“