Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings samþykkti í vikunni beiðni frá lögreglustjóranum á Austurlandi um leyfi vegna uppsetningar eftirlitsmyndavéla við þrjár aðalleiðir inn á Austurland. Sveitarfélagið var hins vegar ekki tilbúið til að taka þátt í að greiða fyrir vélbúnaðinn. Af sjö nefndarfulltrúum samþykktu fimm tillöguna, einn sat hjá og einn var mótfallinn.

Í bókun ráðsins kemur fram að það sé tilbúið að veita heimild fyrir uppsetningu vélanna á tilgreindum stöðum en bent er á að hugsanlega þurfi að sækja um frekari leyfi. Þegar kom að kostnaðarliðunum var áréttað að sveitarfélagið myndi ekki taka þátt í kostnaði við uppsetningu né rekstur vélanna og að þær yrðu ekki hluti af eignarhaldi sveitarfélagsins.