Yfir­völd í Filipps­eyjum hafa skipað frétta­stofunni Rappler að loka sam­nefndri frétta­síðu en Maria Ressa segir að þau muni ekki fylgja skipuninni heldur muni þau á­frýja henni.

Ressa er einn stofnandi Rappler en hún hlaut friðar­verð­laun Nóbels í fyrra fyrir að standa vörð um tjáningar­frelsi. Frétta­síðan hefur verið gagn­rýnin á yfir­völd landsins og for­setann, Rodrigo Duterte, sem klárar valda­tíð sína innan ör­fárra daga.

Ferdinand Marcos Jr, sonur fyrrum ein­ræðis­herra landsins sem ber sama nafn, mun taka við af Duterte þegar hann stígur til hliðar.

Gæti átt áratugi yfir höfði sér

Ressa sagði frá lokunar­skipuninni á fjöl­miðla­ráð­stefnu í Honolulu en sam­kvæmt henni aftur­kallaði verð­bréfa- og við­skipta­nefnd Filipps­eyja starfs­leyfi Rappler.

„Við munum ekki loka,“ sagði Ressa á ráð­stefnunni. „Ég á reyndar ekki að segja það.“ Miðillinn fékk skipunina í gær, 28. júní.

Á valda­tíð Duterte var stærsta sjón­varps­stöð landsins skipuð að hætta út­sendingu auk þess sem Ressa sjálf hefur fengið á sér fjölda kæra sem gætu leitt til þess að hún eyði fleiri árum í fangelsi.