Yfirvöld í Filippseyjum hafa skipað fréttastofunni Rappler að loka samnefndri fréttasíðu en Maria Ressa segir að þau muni ekki fylgja skipuninni heldur muni þau áfrýja henni.
Ressa er einn stofnandi Rappler en hún hlaut friðarverðlaun Nóbels í fyrra fyrir að standa vörð um tjáningarfrelsi. Fréttasíðan hefur verið gagnrýnin á yfirvöld landsins og forsetann, Rodrigo Duterte, sem klárar valdatíð sína innan örfárra daga.
Ferdinand Marcos Jr, sonur fyrrum einræðisherra landsins sem ber sama nafn, mun taka við af Duterte þegar hann stígur til hliðar.
Gæti átt áratugi yfir höfði sér
Ressa sagði frá lokunarskipuninni á fjölmiðlaráðstefnu í Honolulu en samkvæmt henni afturkallaði verðbréfa- og viðskiptanefnd Filippseyja starfsleyfi Rappler.
RAPPLER STATEMENT
— Rappler (@rapplerdotcom) June 29, 2022
In an order dated June 28, our Securities and Exchange Commission affirmed its earlier decision to revoke the certificates of incorporation of Rappler Inc and Rappler Holdings Corporation. #HoldTheLine #CourageON
https://t.co/39bL0KJ2Dw pic.twitter.com/8Q0N6551lh
„Við munum ekki loka,“ sagði Ressa á ráðstefnunni. „Ég á reyndar ekki að segja það.“ Miðillinn fékk skipunina í gær, 28. júní.
Á valdatíð Duterte var stærsta sjónvarpsstöð landsins skipuð að hætta útsendingu auk þess sem Ressa sjálf hefur fengið á sér fjölda kæra sem gætu leitt til þess að hún eyði fleiri árum í fangelsi.