Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir segir það ekki standa til að endur­skoða fyrir­mæli um bólu­efni AstraZene­ca í ljósi fregna af breytingum annarra landa en eins og staðan er í dag er ekki mælt með því að ein­staklingar yfir 65 ára aldri fái bólu­efnið hér á landi.

„Við erum bara með á­kveðið plan þannig þetta mun ekkert breyta mjög miklu hjá okkur í sjálfu sér. Við erum að bólu­setja þessa for­gangs­hópa og reyna að klára það núna út mars og ég held að okkur muni takast það,“ segir Þór­ólfur í sam­tali við Frétta­blaðið um málið.

Ekki næg gögn um virkni hjá eldri einstaklingum

Frakk­land var meðal þeirra sem sögðu að eldri borgarar myndu ekki fá bólu­efnið þar sem ekki væru nægi­leg gögn um virkni bólu­efnisins á þann hóp en því var breytt í vikunni. Þá hafa Þjóð­verjar verið hvattir til að endur­skoða sín til­mæli þar sem sér­fræðingar segja bólu­efnið öruggt.

„Ég held að það sé ekki á­stæða til að vera að hringla alltaf í þessum leið­beiningum nema það sé ein­hver rík á­stæða til, og ég sé nú varla að það sé það,“ segir Þór­ólfur enn fremur að­spurður út í málið en nokkur lönd hafa á­kveðið að standa með þeirra leið­beiningum.

Fjöl­margar með­lima­þjóðir Evrópu­sam­bandsins eiga nú í erfið­leikum með að koma bólu­efni AstraZene­ca út en Angela Merkel, kanslari Þýska­lands, lýsti því sem svo í síðustu viku að í­búar glímdu við „við­töku­vanda.“ Af þeim skömmtum sem hefur verið dreift er aðeins búið að nota einn af hverjum fimm skömmtum.

Nokkur slík dæmi komu upp á Ís­landi fyrir skömmu en Þór­ólfur segist ekki hafa heyrt af fleiri til­fellum upp á síð­kastið, enda ekkert að bólu­efninu. „Það er engin á­stæða til að vera að hafna einu bólu­efni um­fram annað bólu­efni. Þannig ég held að það sé ekkert stórt vanda­mál eins og staðan er núna.“

Fara niður forgangsröðunina

Auk bólu­efnis AstraZene­ca hafa tvö önnur bólu­efni fengið skil­yrt markaðs­leyfi hér á landi, bólu­efni Pfizer annars vegar, og bólu­efni Moderna hins vegar. Rúm­lega 12,6 þúsund manns hafa verið bólu­settir að fullu og er bólu­setning hafin hjá rúm­lega 8,5 þúsund til við­bótar.

Að­spurður um hvernig bólu­setning gengur segir Þór­ólfur að hún gangi vel en til stendur að bólu­setja tæp­lega níu þúsund ein­stak­linga í vikunni. Munu þá ein­staklingar 81 árs og eldri fá sinn fyrsta skammt af bólu­efni Pfizer og starfs­menn hjúkrunar­heimila fá sinn fyrsta skammt af bólu­efni AstraZene­ca.

„Við vonumst til þess að við verðum búin að bólu­setja alla sem eru 70 ára og eldri og svo heil­brigðis­starfs­menn og starfs­menn á hjúkrunar­heimilum í lok mánaðar, þannig að ég svona bind vonir við það,“ segir Þór­ólfur.

Næstir í for­gangs­röðuninni eru ein­staklingar eldri en 60 ára og fólk með undir­liggjandi sjúk­dóma en það liggur ekki fyrir hve­nær hægt verður að bólu­setja þá hópa. „Við vitum ekki hvað við fáum mikið af bólu­efnum í apríl og svo á­fram, þannig við þurfum að bíða eftir að sjá það áður en við getum lagt fram ein­hverja á­ætlun.“

Upplýsingar um stöðu bólusetninga má finna á vef covid.is eða hér fyrir neðan.