„Það liggur alveg fyrir að íslenskt verkafólk afsalar sér ekki verkfallsrétti fyrir afturvirkni eins og er fólgið í tilboði SA. Ef það næst kjarasamningur fyrir mánaðamót þá segir það sig sjálft að hann myndi gilda frá 1. janúar. Ef það dregst lengur að semja verður það að koma í ljós en afturvirkni er skýlaus krafa af okkar hálfu,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í Fréttablaðinu í gær að samtökin gætu fallist á afturvirka samninga verði samið á skynsamlegum nótum fyrir mánaðamót. Tilboðið félli niður yrði viðræðum slitið og boðað til verkfalla.

Deiluaðilar hittust öðru sinni hjá ríkissáttasemjara í gær en ekki var rætt sérstaklega um útspil SA um afturvirkni. Vilhjálmur bendir á að aðilar hafi fundað sjö sinnum áður en þeir komu að borði sáttasemjara.

„Þannig vitum við nokkurn veginn hvar við stöndum gagnvart hver öðrum að öðru leyti en því að við höfum ekki fengið svar við þeirri veigamiklu spurningu sem lýtur að kröfum okkar til launaliðarins. Það varð niðurstaða þessa fundar að þau svör fengjust á næsta fundi,“ segir Vilhjálmur.

Næsti fundur hefur verið boðaður á miðvikudaginn í næstu viku. Vilhjálmur segir því ljóst að þá skýrist línur varðandi framhaldið. „Þá sjáum við hvort við erum að leggjast upp að bryggju eða séum að stefna út á haf.“

Halldór segir að á fundinum í næstu viku muni verkalýðshreyfingin koma með kostnaðarmat á kröfugerðir sínar. „Það er löngu tímabært að fá kostnaðarmat á kröfugerðirnar og ég fagna því. Við höfum kallað eftir því frá því þær komu fram.“