Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist sáttur við niðurstöðu kosningar um nýja kjarasamninga. Hann varar þó við því að félagið muni bregðast harkalega við muni fyrirtæki hækka verð á vörum til að bregðast við samningunum.

„Þetta er mjög afgerandi niðurstaða þannig við erum sátt við það. Þetta er það afgerandi að það er leiðbeinandi niðurstaða um að við séum réttri braut,“ segir Ragnar Þór í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir að bæði hafi þau verið á réttri braut hvað varðar stíganda í atkvæðagreiðslu og að nærri 90 prósent þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni hafi samþykkt samningana. „Sérstaklega með þetta mikla og breiða félag,“ segir Ragnar Þór.

Hafa ekki heyrt af hækkunum hjá fleirum

Spurður hvort þau hafi heyrt að fleiri fyrirtækjum en ÍSAM og Gæðabakstri/Ömmubakstri sem hafa boðað hækkanir í kjölfar þess að samningarnir verði samþykkir neitar Ragnar Því. Hann segir að þau muni bregðast harkalega við verði af hækkununum.

„Við höfum ekki heyrt neitt meira, en verði þessar hækkanir hjá þessum fyrirtækjum að veruleika munum við bregðast mjög harkalega við,“ segir Ragnar Þór.

Hann segir að þau eigi eftir að senda frá sér tilkynningu um hvernig þau muni bregðast við.

„Við þessu vantrausti sem að þessi fyrirtæki eru að reyna að mynda með gjá á milli vinnumarkaðarins og okkar sem eru reyna að fara í þessa jákvæðu vegferð,“ segir Ragnar Þór.

Hann segir að hann hafi heyrt í öðrum fyrirtækjum sem hafi tjáð þeim að þau ætli að halda aftur af verðhækkunum og fara í þetta verkefni með þeim. En að fyrst þurfi að sjá hvort verði af hækkununum.