Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu stefnir að því að hefja sýnatöku í tjaldi við Suðurlandsbraut. Er gert ráð fyrir að fólk með COVID-19 einkenni geti keyrt þar í gegn og farið í sýnatöku án þess að fara úr bílnum.

Þetta kom fram í máli Óskars Reykdalssonar, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, á upplýsingafundi í dag. Vonast er til að hægt verði að taka eitt til tvö sýni á hverri mínútu en heilsugæslan hefur reynt að auka sýnatöku eftir að smitum fór að fjölga.

Skjólstæðingar hringi fyrst

Þá lagði Óskar sérstaka áherslu á að fólk hringi áður en það mætir á heilsugæslustöð og að það haldi sig til hlés á meðan það bíður eftir niðurstöðu úr sýnatöku.

„Ef maður er með einkenni og það er metið í síma að það þurfi að taka sýni þá er maður grunaður um að vera með COVID-19. Maður heldur sig í einangrun ef svo er og maður er ekki að umgangast fólk þangað til að sýnið er tekið eða þangað til maður fær niðurstöðu,“ sagði Óskar og bætti við að mikilvægt væri að minna á þetta af gefnu tilefni.

Starfsemi óbreytt

Nú sé lögð mikil áhersla á að skipuleggja starf heilsugæslustöðvanna með þeim hætti að ekki stafi hætta af. Það sé meðal annars gert með því að sótthreinsa, hafa viðtöl stutt og halda fjarlægð.

Einna mikilvægast sé þó að fólk hringi á undan sér svo hægt sé að meta hvort einstaklingur geti verið sýktur af COVID-19 áður en hann mætir.

Að sögn Óskars verður starfsemi heilsugæslunnar óbreytt að öðru leyti og ekki stendur til að loka stöðvum af sóttvarnarástæðum.