Búist er við því að Evrópusambandið muni biðla til Kína að veita Rússum ekki vopn vegna innrásarinnar í Úkraínu, hvað þá veita Vladímír Pútín aðstoð við að losa um viðskiptaþvinganir á hendur Rússlandi. BBC greinir frá þessu.

Forseti Kína Xi Jinping, sem hefur neitað að fordæma innrás Rússlands, mun eiga þriggja klukkutíma netfund á morgun, föstudag, en þar mun hann meðal annars funda með Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Í febrúarbyrjun sendu Rússland og Kína frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem því var haldið fram að samband þjóðanna væri órjúfanlegt. Í lok sama mánaðar réðst Rússland inn í Úkraínu.

Talið er að Rússar hafi óskað eftir aðstoð frá Kína, meðal annars hernaðarlegri, en einnig til að takast á við viðskiptaþvinganir vesturlanda. Búist er við því að von der Leyen muni setja pressu á Xi að verða ekki við þeirri ósk. Þvert á móti vill hún að Kína noti mátt sinn til að aðstoða í baráttunni gegn Rússlandi.

Þó er ekki búist við því að fundurinn muni leiða af sér stór samkomulög, en vonast þó til að hægt verði að fá Xi til að sannfærast um að vopnaaðstoð til Rússa yrði óskinsamleg.