„Þetta er frekar skrítið allt saman,“ segja þau Karitas Eva Rögnvaldsdóttir, Þorri Ingólfsson, Jónas Björn Sævarsson og Þóra María Hjaltadóttir, nemendur í 6. bekk Fossvogsskóla.

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að ráðast í gagngerar endurbætur á öllum þremur byggingum Fossvogsskóla til að freista þess að losna við alla myglu og rakaskemmdir úr húsnæðinu. Ráðist var í umfangsmiklar framkvæmdir árið 2019, svo var ráðist í viðgerðir í fyrra eftir að nemendur fundu áfram fyrir einkennum. Verkfræðistofan Verkís sá um fyrri framkvæmdir, nú hefur verkfræðistofan Efla skilað drögum að minnisblaði þar sem segir að fyrri framkvæmdir hafi ekki reynst fullnægjandi.

Fjarlægja þurfi rakaskemmt timbur úr þaki, endurnýja gólfefni, fjarlægja múr og einangrun. Þá sé loftræstikerfi verulega ábótavant og asbest að finna í nokkrum gluggakistum.

Foreldrar sem Fréttablaðið ræddi við í gær voru slegnir yfir niðurstöðunum og fóru nokkrir þeirra ófögrum orðum um framgöngu borgarinnar í málinu.

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, segir mikilvægt að hratt og vel sé farið í aðgerðir.

„Ég tel að þessi úttekt EFLU hjálpi til við að draga þann mikilvæga lærdóm af þessu máli að það þurfi að skerpa á ferlum um hvernig er brugðist við rakaskemmdum, þar með talið að horfa ætíð gagnrýnum augum á vinnu úttektaraðila á öllum stigum og sú vinna við ferla er langt komin,“ segir Skúli.

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs.
Fréttablaðið/Anton Brink

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur óskað eftir að málið verði tekið upp á næsta fundi borgarstjórnar. „Það hefur verið sagt að viðgerðir hafi verið fullnægjandi og að búið hafi verið að skipta um allt skemmt efni, því var jafnvel haldið fram að sú mygla sem var að finnast í skólanum seint á síðasta ári væri að koma að utan,“ segir hún. Þá kallar hún eftir skoðun á vinnubrögðum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem hafi gefið húsnæðinu góða umsögn við eftirlit. „Ef Fossvogsskóli fékk góða einkunn frá Heilbrigðiseftirlitinu, hvað eru þá margir Fossvogsskólar í Reykjavík?“

Karl Óskar Þrá­ins­son, formaður for­eldra­fé­lags Foss­vogs­skóla, segir það vera í höndum borgarinnar að byggja upp traust að nýju. Krafa foreldra sé að verkið verði í höndum Eflu. „Vandinn er ennþá bundinn við sömu herbergi og sömu rými og hefur verið frá upphafi. Sumt hefur verið tekið tvisvar fyrir,“ segir hann.

Valgerður Gísladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Fréttablaðið/Valgarður Gíslason

Kennslan í vor hefur verið í Korpu­skóla í Grafarvogi og taka nemendur rútu til og frá Fossvogsskóla. Húsnæði Korpuskóla er gert fyrir talsvert færri nemendur en eru í Fossvogsskóla.

„Það er svo þröngt,“ segir Karitas. „Alveg pínulítið,“ segir Þorri. Það er hins vegar útisvæði við Korpuskóla sem gerir hann skárri kost en húsnæði KSÍ þar sem nemendur sinntu námi meðan á framkvæmdum stóð árið 2019. „Við þurfum líka að vera allan 7. bekk í Korpuskóla, við fengum að vita það í gær,“ segir Jónas. „Þannig að við erum ekkert að koma hingað aftur,“ segir Þorri, en Fossvogsskóli er aðeins upp í 7. bekk.

Þau sakna þess að vera í sínum skóla. „Stofan mín er náttúrufræðistofa, það er rosalega heitt inni í stofunni,“ segir Karitas. „Það er alveg fínt að vera búinn aðeins fyrr í skólanum,“ segir Þorri. Heimanámið er samt ekki meira þó að dagurinn styttist vegna rútuferða. „Ef maður er góður að læra í skólanum þá er ekkert meira að læra heima,“ segir Þóra. Þau hafa sjálf ekki fundið sérstaklega fyrir einkennum myglu. „Smá kvef,“ segir Þorri. Þau kannast þó öll við nemendur sem finna fyrir einkennum.