Aðal­bygging Tækni­minja­safns Austur­lands varð fyrir miklum skemmdum í aur­skriðunum sem fallið hafa síðustu daga á Seyðis­firði. Í byggingunni voru skrif­stofur safnsins, prent­verk­stæði og megnið af safn­kosti þess; ljós­mynda­safn og skjala­safn. Gamla skipa­smíða­stöðin, bygging frá 1897, ger­eyði­lagðist þá þegar hún varð fyrir skriðu.

„Eyði­legging þessara sögu­legu bygginga og safn­kostar safnsins sem var geymdur í þeim er gríðar­legur missir fyrir sögu Seyðis­fjarðar. Hluti safn­kostarins var þó geymdur í öðru rými og slapp við skemmdir,“ segir í til­kynningu frá Tækni­minja­safni Austur­lands.

Þá segir að Vél­smiðja Jóhanns Hans­sonar, bygging frá árinu 1906, hafi einnig orðið fyrir ein­hverjum skemmdum vegna aur­skriðanna. Hún var ekki í miðjum vegi þeirra en í til­kynningunni segir að átta metra hátt lag af aur hafi hlaðist upp í kringum hana. Eins og er sé ekki hægt að meta tjónið á þeirri byggingu.

„Í þessari erfiðu stöðu hafa Þjóð­minja­safnið og Blái Skjöldurinn á Ís­landi boðið fram hjálp sína og sér­þekkingu. Næstu skref verða rædd á næstu dögum og á­kveðið hvernig best sé að bjarga þeim munum safnsins sem bjarga má úr aurnum,“ segir í til­kynningunni.

Þar segir að enn hafi safnið ekki getað farið á svæðið, sem búið er að rýma, og því hafi það allar upp­lýsingar um að­stæðurnar frá björgunar­sveitum og lög­reglu. Á næstu dögum, vikum og mánuðum komi heildar­tjón í ljós og að­gerðir safnsins í fram­haldinu.