Ástæða þess að Sorpa bs. hefur ekki veitt Stundinni viðtal er vegna eðli spurninganna, það væri sjálfsagt að veita viðtal ef það væri á færi eins manns að svara spurningunum.

Málefni upplýsingagjafar opinberra aðila til fjölmiðla komst í hámæli í síðustu viku eftir að birtur var tölvupóstur deildarstjóra samskipta hjá Landspítalanum til stjórnenda að beina öllum fyrirspurnum fjölmiðla til sín. Deildarstjórinn baðst afsökunar á póstinum.

Fram kemur í nýjasta tölublaði Stundarinnar að Sorpa hefði neitað viðtalsbeiðnum svo mánuðum skipti. „Ítrekuðum viðtalsbeiðnum Stundarinnar um viðtal við Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóra Sorpu, hefur verið neitað svo mánuðum skiptir,“ segir meðal annars í umfjöllun Stundarinnar sem snýr Gas- og jarðgerðarstöðinni í Álfsnesi, GAJA.

Tæknilegar spurningar sem krefjist gagnaöflunar

Jón Viggó segir í samtali við Fréttablaðið að spurningum Stundarinnar hafi verið svarað skriflega.

„Almennt séð er stefna okkar hjá Sorpu að svara öllum spurningum og vangaveltum frá almenningi og fjölmiðlum með skýrum og greinilegum hætti,“ segir Jón Viggó.

„Í tilfelli Stundarinnar þá gerðum við það skriflega, við mátum það svo að þegar við sáum spurningarnar og vangaveltur Stundarinnar að best væri að skila svörum skriflega vegna þess að þetta voru frekar tæknilegar spurningar sem kröfðust gagnaöflunar. Það var mikið sagnfræðigrúsk í spurningunum sem kallaði á aðkomu margra sérfræðinga og er ekki á færi eins manns að svara í viðtali.“

Ef Stundin myndi óska eftir viðtali, þá án tæknilegra spurninga, mynduð þið veita þeim viðtal?

„Já, að sjálfsögðu.“

Jón Viggó segir að gerð sé krafa að vita gróflega hvað blaðamenn eru að velta fyrir sér. „Stundin hefur unnið ágæta vinnu við að rifja upp söguna og ákveðin mál í tilkomu GAJA. Það er mjög fínt að menn haldi því til haga.“

Sorpa forðist að svara

Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar, segir að framkvæmdastjóri Sorpu eigi að treysta sér til að svara blaðamanni þótt hann sé gagnrýninn.

„Við höfum fylgst með Sorpu tefja og hindra vinnu blaðamanns, forðast að svara og synja um viðtöl, neita að veita aðgang að moltu sem er afurð fyrirtækisins, og skrifa á sama tíma sínar eigin fréttir sem henta stjórnendum fyrirtækisins betur, birta þær á Facebook og kosta til auglýsinga á þeim þar,” segir Jón Trausti.

„Þetta virðist vera nýja aðferðin í almannatengslum í stað þess að mæta bara í viðtal og svara öllum spurningum eftir bestu getu. Á sama tíma og fjölmiðlar eru undirfjármagnaðir eru ríkið og sveitarfélög að ráða til sín stöðugt fleiri upplýsingafulltrúa til að skrifa fréttirnar sjálfir.“

Jón Trausti Reynisson og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir eru ritstjórar Stundarinnar.
Fréttablaðið/Ernir

Jón Trausti bendir á að Sorpa sé fyrirtæki í eigu allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu, fyrirtæki sem sé treyst fyrir umhverfinu.

„Gagnsæi og aðhald skipta miklu máli í umhverfis- og endurvinnslumálum. Við þurfum ekki nema að horfa til forsögu Sorpu síðustu ár og stöðunnar hjá Úrvinnslusjóði, sem Stundin hefur fjallað um, eða skorts á raunverulegri endurvinnslu þess sem við sendum til endurvinnslu, til þess að komast að þeirri niðurstöðu að stjórnendur fyrirtækisins skulda að lágmarki svör við öllum spurningum en í besta falli einhverja auðmýkt gagnvart gagnrýnum spurningum, til dæmis þegar það sést vel plastdrasl í efninu frá þeim sem dreifa á um íslenska náttúru,“ segir Jón Trausti.

„Í slíku tilfelli væri lágmarkskrafa að Sorpa veitti aðgengi að efninu og stjórnandi fyrirtækisins kæmi í viðtal, í stað þess að skrifa sitt eigið fréttaefni og borga fyrir dreifingu þess í fréttastreymi almennings á Facebook. Forsagan og allt þetta bendir til þess að Sorpa þarf að byrja á því að taka til í viðhorfi sínu gagnvart upplýsingagjöf til almennings.“

Sorpa tekið miklum stefnubreytingum

GAJA á meðal annars að koma í veg fyrir að metan sleppi út í andrúmsloftið með tilheyrandi loftslagsáhrifum.

Jón Viggó segir að Sorpa hafi tekið mikla stefnubreytingu frá því sem rætt sé um í umfjöllun Stundarinnar. „Síðustu átta eða tólf mánuði höfum við talað um að við glímum við hráefnisvanda, ekki tæknivanda. Vandi Gas- og jarðgerðarstöðvarinnar er ekki framleiðsluvandi heldur hráefnisvandi. Þetta eru sjónarmið sem er mikilvægt að hafa í huga þegar menn fjalla um Gas- og jarðgerðarstöðina, að flokkun heima við með meðhöndlun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu er ekki til þess fallinn að skila til okkar hráefni sem gott er að vinna moltu úr,“ segir Jón Viggó.

„MAST hefur úrskurðað um það að uppruni úrgangsins sé lífrænn og sérsafnaður, þetta hefur legið fyrir í nokkra mánuði. Við höfum verið að vinna samkvæmt því plani núna, að innleiða sérsöfnun. Þetta hefur verið rætt og samþykkt í bæjarráðum allra sveitarfélagana sem standa að Sorpu.“