Björgunar­sveitir hafa í dag fengið vel rúm­lega 100 hjálpar­beiðnir í tengslum við lægðina sem gengur nú yfir en að sögn Davíðs Más Bjarna­sonar, upp­lýsinga­full­trúa Lands­bjargar, var mest um til­kynningar upp úr há­degi fram á miðjan dag en hefur fækkað tölu­vert í kvöld. Flest verk­efnin til að byrja með hafi snúið að því að koma öku­mönnum til að­stoðar.

„Það var mikið um að­stoð við öku­menn bíla sem voru að lenda í vand­ræðum út af lé­legri færð eða hálku eða vindi á þjóð­veginum. Það kannski kemur ekkert rosa­lega á ó­vart, ég held að við Ís­lendingar séum ekkert endi­lega vanir svona kröppum lægðum svona snemma á haustin,“ segir Davíð í sam­tali við Frétta­blaðið og vísar til þess að flestir bílar hafi enn verið á sumar­dekkjum.

Þá hafi jafn­vel dottið inn beiðnir frá öku­mönnum á há­lendinu þrátt fyrir að veður­fræðingar hafi í­trekað sagt að ekkert ferða­veður á svæðinu. „Það er svona kannski það sem við höfum verið að taka út úr þessu í dag, við hefðum klár­lega viljað sjá það að fólk hefði með­tekið betur við­varanirnar í gær,“ segir Davíð.

„Það gekk vel miðað við að­stæður og undir­búningurinn í gær skilaði sér klár­lega en ég held að við getum alveg, eins og lög­reglu­stjórinn á Norður­landi gerði í dag, biðlað til fólks að taka mark á við­vörunum og hjálpast öll á við að tryggja það að við komumst heil heim, það munar rosa­lega um það að sleppa við slys í svona að­stæðum,“ segir Davíð.

Foktilkynningar á norðvesturlandi og vatnselgur í Siglufirði

Um miðjan dag fóru síðan að berast til­kynningar um hluti að fjúka og voru þær til­kynningar alveg frá Vopna­firði og vestur í Bolungar­vík. Síðan hafi skyndi­lega hvesst á Ísa­firði sem kom við­bragðs­aðilum að vissu leiti á ó­vart.

„Það hrúguðust inn ein­hverjar 30 eða 40 beiðnir á ein­hverjum einum og hálfum klukku­tíma,“ segir Davíð. „Það voru að fjúka þarna svala­hurðar og brotna gluggar, og ein­hver garð­hús að fjúka, ferða­hýsi og þakk­læðningar, þetta svona sem við sjáum reglu­lega í svona veðri.“

Í Fjalla­byggð þurftu björgunar­sveitir einnig að bregðast við fjölda verk­efna á svipuðum tíma.

„Seinni­partinn eftir að þessi hvellur var búinn að koma þarna í djúpinu, þá fór að bera á til­kynningum um vatns­elg á Siglu­firði, sem eru svona verk­efni sem við­bragðs­aðilar þekkja þar. Það fór að flæða bæði upp úr frá­veitu­kerfi og inn í ein­hverja kjallara og þess háttar,“ segir Davíð.

Á svipuðum tíma hafi skyndi­lega tekið að hlýna á svæðinu og voru slökkvi­lið í Fjalla­byggð og björgunar­sveitir á Siglu­firði langt fram á kvöld að sinna verk­efnum þar sem verið var að dæla upp úr kjöllurum. Að­spurður um hversu mikið vatns­tjón varð vegna þessa segir Davíð það erfitt að segja en væntan­lega sé það eitt­hvað.

„En svona að öðru leiti hefur þetta bara gengið vel, ég held að þetta séu svona vel rúm­lega hundrað, 120 beiðnir sem björgunar­sveitir hafa sinnt í dag. Kannski svona færri á Vest­fjörðum en við höfðum gert ráð fyrir, þar sem þar var nú verst spáin, en það virðist kannski bara vera að þar hafi menn undir­búið sig bara mjög vel,“ segir Davíð um stöðuna.

Vonar að þau muni eiga rólega nótt

Að­spurður um hvort eitt­hvað hafi verið um slys á fólki segir Davíð ekki vita til þess. „Þetta hefur heilt yfir bara gengið rosa­lega vel, það var þarna eitt til­felli rétt fyrir há­degi þar sem það var rúta á Hrúta­fjarðar­hálsi sem var hálf út af veginum, það bara gekk mjög vel sem betur fer,“ segir Davíð þó en um 70 manns voru þar um borð og var þeim fljót­lega komið í skjól.

„Það hefði alveg geta farið verr, ef rútan hefði endað út af veginum á hliðinni eða eitt­hvað slíkt, þá hefði það kannski verið erfiðara við­fangs þetta verk­efni, en það hafa ekki verið nein slys á fólki, eftir því sem ég best veit, út af veðri í dag,“ segir Davíð enn fremur.

Til­kynningum fer nú fækkandi og segir Davíð það passa við veður­spánna. Vísar hann til þess að veður­fræðingar hafi haft orð á því að veðrið myndi ganga fyrr niður en gert var ráð fyrir. „Þannig ég vona að við munum öll eiga svo­lítið ró­lega nótt bara. Þangað til næst,“ segir Davíð að lokum léttur í bragði.