Björgunarsveitir hafa í dag fengið vel rúmlega 100 hjálparbeiðnir í tengslum við lægðina sem gengur nú yfir en að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, var mest um tilkynningar upp úr hádegi fram á miðjan dag en hefur fækkað töluvert í kvöld. Flest verkefnin til að byrja með hafi snúið að því að koma ökumönnum til aðstoðar.
„Það var mikið um aðstoð við ökumenn bíla sem voru að lenda í vandræðum út af lélegri færð eða hálku eða vindi á þjóðveginum. Það kannski kemur ekkert rosalega á óvart, ég held að við Íslendingar séum ekkert endilega vanir svona kröppum lægðum svona snemma á haustin,“ segir Davíð í samtali við Fréttablaðið og vísar til þess að flestir bílar hafi enn verið á sumardekkjum.
Þá hafi jafnvel dottið inn beiðnir frá ökumönnum á hálendinu þrátt fyrir að veðurfræðingar hafi ítrekað sagt að ekkert ferðaveður á svæðinu. „Það er svona kannski það sem við höfum verið að taka út úr þessu í dag, við hefðum klárlega viljað sjá það að fólk hefði meðtekið betur viðvaranirnar í gær,“ segir Davíð.
„Það gekk vel miðað við aðstæður og undirbúningurinn í gær skilaði sér klárlega en ég held að við getum alveg, eins og lögreglustjórinn á Norðurlandi gerði í dag, biðlað til fólks að taka mark á viðvörunum og hjálpast öll á við að tryggja það að við komumst heil heim, það munar rosalega um það að sleppa við slys í svona aðstæðum,“ segir Davíð.
Foktilkynningar á norðvesturlandi og vatnselgur í Siglufirði
Um miðjan dag fóru síðan að berast tilkynningar um hluti að fjúka og voru þær tilkynningar alveg frá Vopnafirði og vestur í Bolungarvík. Síðan hafi skyndilega hvesst á Ísafirði sem kom viðbragðsaðilum að vissu leiti á óvart.
„Það hrúguðust inn einhverjar 30 eða 40 beiðnir á einhverjum einum og hálfum klukkutíma,“ segir Davíð. „Það voru að fjúka þarna svalahurðar og brotna gluggar, og einhver garðhús að fjúka, ferðahýsi og þakklæðningar, þetta svona sem við sjáum reglulega í svona veðri.“
Í Fjallabyggð þurftu björgunarsveitir einnig að bregðast við fjölda verkefna á svipuðum tíma.
„Seinnipartinn eftir að þessi hvellur var búinn að koma þarna í djúpinu, þá fór að bera á tilkynningum um vatnselg á Siglufirði, sem eru svona verkefni sem viðbragðsaðilar þekkja þar. Það fór að flæða bæði upp úr fráveitukerfi og inn í einhverja kjallara og þess háttar,“ segir Davíð.
Á svipuðum tíma hafi skyndilega tekið að hlýna á svæðinu og voru slökkvilið í Fjallabyggð og björgunarsveitir á Siglufirði langt fram á kvöld að sinna verkefnum þar sem verið var að dæla upp úr kjöllurum. Aðspurður um hversu mikið vatnstjón varð vegna þessa segir Davíð það erfitt að segja en væntanlega sé það eitthvað.
„En svona að öðru leiti hefur þetta bara gengið vel, ég held að þetta séu svona vel rúmlega hundrað, 120 beiðnir sem björgunarsveitir hafa sinnt í dag. Kannski svona færri á Vestfjörðum en við höfðum gert ráð fyrir, þar sem þar var nú verst spáin, en það virðist kannski bara vera að þar hafi menn undirbúið sig bara mjög vel,“ segir Davíð um stöðuna.
Vonar að þau muni eiga rólega nótt
Aðspurður um hvort eitthvað hafi verið um slys á fólki segir Davíð ekki vita til þess. „Þetta hefur heilt yfir bara gengið rosalega vel, það var þarna eitt tilfelli rétt fyrir hádegi þar sem það var rúta á Hrútafjarðarhálsi sem var hálf út af veginum, það bara gekk mjög vel sem betur fer,“ segir Davíð þó en um 70 manns voru þar um borð og var þeim fljótlega komið í skjól.
„Það hefði alveg geta farið verr, ef rútan hefði endað út af veginum á hliðinni eða eitthvað slíkt, þá hefði það kannski verið erfiðara viðfangs þetta verkefni, en það hafa ekki verið nein slys á fólki, eftir því sem ég best veit, út af veðri í dag,“ segir Davíð enn fremur.
Tilkynningum fer nú fækkandi og segir Davíð það passa við veðurspánna. Vísar hann til þess að veðurfræðingar hafi haft orð á því að veðrið myndi ganga fyrr niður en gert var ráð fyrir. „Þannig ég vona að við munum öll eiga svolítið rólega nótt bara. Þangað til næst,“ segir Davíð að lokum léttur í bragði.