„Þetta snýst um það að fara illa með eigur almennings. Í þessu tilfelli erum við að tala um stærstu einstöku ríkiseignasölu sem gerð hefur verið,“ segir Þorsteinn í samtali við Fréttavaktina á Hringbraut.

Þorsteinn segist hafa barist í málinu í rúmlega fimm ár, við lítinn áhuga. Hann kveðst fagna auknum áhuga og umfjöllun á málinu.

„Árið 2016 er þetta fyrirtæki stofnað, Lindarhvoll ehf. Það á að selja eignir frá slitabúunum eins hratt og hægt er. Það á að slíta fyrirtækinu 2018, þarna er ekki búið að því ennþá. 2018 kemur settur ríkisendurskoðandi, Sigurður Þórðarson fram með greinargerð um starfsemina, sem okkur býður í grun að þar hafi hann fundið að hinu og þessu, en það hefur hins vegar aldrei komið upp á yfirborðið,“ segir Þorsteinn.

„Hins vegar hefur eitt mál komið upp á yfirborðið og það varðar dómsmálið, og það er salan á eignarhaldi í Klakka,“ segir hann.

„Ég hélt að ég vissi töluvert um þetta mál, en það að sitja í Héraðsdómi um daginn í tvo daga, ég fylgdist með öllum vitnaleiðslum. Mér brá illa. Þarna kom einn ágætur bankamaður sem er alvanur að selja eignir, hann sagði að þetta söluferli hefði verið sjoppulegt.“

Milli nautakjöts og spákonu

Að sögn Þorsteins var salan auglýst í pínulítilli auglýsingu á baksíðu í Viðskiptablaðinu. „Öðrum megin var nautakjöt beint frá býli, með fullri virðingu, og hinum megin var spákona. Þarna er þetta falið og það er sagt, þetta er Trans 5 í Klakka. Þessar upplýsingar segja engum neitt nema einhverjum sem er mjög verseraður í þessum fræðum,“ segir Þorsteinn.

„Það eru 23 aðilar sem sýna áhuga. Þeir hrökklast frá vegna þess að söluupplýsingar eru mjög fátæklegar. Það er bent á símanúmer lögfræðistofu lögfræðingsins sem var allt um kring í þessu máli og hann var lögfræðilegur ráðunautur stjórnar Lindarhvols. Hann var stjórnarmaður í Klakka. Tveir af þeim sem bjóða í eru annars vegar forstjóri Klakka og hins vegar fjármálastjóri Klakka,“ segir hann. „Þeir eru með innherjaupplýsingar, þeir eru með sex, jafnvel átta mánaða uppgjör sem aðrir höfðu ekki. Þeir bjóða samkvæmt því.“

Þorsteinn segir þá hafa boðið með þeim fyrirvara að Fjármálaeftirlitið gæfi samþykki. „Þeir bjóða 505 milljónir sem er tekið,“ segir hann.

„Fimm mánuðum seinna þegar FME er búið að fara yfir málið er þessi eignarhlutur orðinn 425 milljóna króna virði, það töpuðust áttatíu milljónir þarna,“ segir Þorsteinn.

„En það er ekki allt vegna þess að Sigurður Þórðarson fékk einn besta endurskoðanda á Íslandi, Stefán Svavarsson til að meta þessa eign. Hann mat hana á milljarð. Þarna var selt á hálfvirði einum erlendum vogunarsjóði og hann var á bakvið bæði þessi tilboð þar sem að Klakkamennirnir voru involveraðir.“

Furðar sig á minnisleysi

Að mati Þorsteins er söluaðferðin slök. „ Það sem ég er búinn að velta fyrir mér eru tveir aðrir eignahlutar sem Sigurður bendir á, það er önnur sala á hlut í Klakka sem var í eigu Glitnis og það eru eignir þarna í Arion-banka eigu sem hann gerði athugasemdir við,“ segir Þorsteinn.

„Í réttinum um daginn kom fram, þegar stjórnin var spurð, og ég geri undanþágu með einn stjórnarmann sem er aldraður og við skulum láta það liggja milli hluta, að þarna var fólk fullfrískt sem mundi ekkert frá 2018, ekki neitt,“ segir hann.

„Nú veit ég ekki hvernig CV þessa fólks lítur út, en ef mér hefði einhvern tímann verið falið að standa að stærstu einstöku eignasölu ríkisins þá held ég að ég myndi muna sirka hvernig hún fór fram. En þessi stjórn þarna var gersamlega meðvitundarlaus og minnislaus.“

Sigmundur Ernir Rúnarsson ræddi við Þorstein í Fréttavaktinni á Hringbraut í gær. Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að neðan.