Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, vill ekki tjá sig um nýlegar ásakanir í hans um kynferðislega áreitni að svo stöddu.

Fréttablaðið hefur fjallað um að Aldís Schram, dóttir Jóns, hafi stigið fram í pistli á Facebook-síðu sinni þar sem hún fer löngum orðum um kynferðislega áreitni og aðra niðurlægjandi meðferð sem hún hlaut á æskuheimili sínu. Þá hefur Stundin jafnframt greint frá frásögn annarra kvenna um hegðun Jóns. Hildur Lilliendahl hefur einnig lesið fjölmiðlum pistillinn fyrir að fjalla ekki um ásakanirnar.

Sjá einnig: Hildur reið út í fjöl­miðla: „Þetta er risa­stór frétta­mál“

Fyrrverandi bandamaður Jóns til margra ára, Hrafn Jökulsson ritstjóri, greindi jafnframt frá því á Facebook-síðu sinni að Jón hafi stundað það sem kennari í Hagaskóla að senda ungum kvenkyns nemendum sínum „ástarbréf“.

Í samtali við Fréttablaðið vildi Jón ekki tjá sig um ásakanirnar. „Ég hef ekki fylgst með þessu öllu og vil því ekki tjá mig um málið svona eftir pöntun. Ég mun hins vegar gera það það þegar að því kemur,“ segir Jón, aðspurður hvort hann vildi tjá sig um ásakanirnar. Sagði hann að honum væri einungis kunnugt um ásakanirnar sem birtust í Stundinni.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Jón er sakaður um kynferðislega áreitni. Umdeild bréfaskipti Jóns við unga frænku eiginkonu sinnar komust í kastljós fjölmiðla árið 2012. Kæru vegna bréfanna, sem þykja heldur óviðeigandi, var vísað frá árið 2005.

Þá hefur verið stofnaður sérstakur #MeToo-hópur um hegðun Jóns.