Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, ætlar að innlima fjögur héruð Úkraínu formlega á morgun samkvæmt tilkynningu frá Kremlín. Það gerir hann í kjölfar fjögurra daga kosningu sem lauk á þriðjudag. Atkvæðagreiðslan hefur verið fordæmd af leiðtogum vestrænna ríkja sem segjast ekki taka mark á niðurstöðunum.

Rússneskir embættismenn greindu frá því í gær að mikill meirihluti þeirra sem tóku þátt studdu innlimunina en á meðan atkvæðagreiðslunni stóð bárust víða fréttir af því að íbúum hefði verið hótað og atkvæði tekin með ólöglegum hætti.

Héruðin sem um ræðir eru Luhansk, Donetsk, Zaporizhzhia og Kherson.

Í frétt BBC um málið kemur fram að Pútín muni við sérstaka athöfn undirrita formlega innlimun héruðanna á morgun klukkan 15 að staðartíma og halda ræðu.

Samkomulag verður undirritað við hvert og eitt hérað. Landssvæðið telur samanlagt um 15 prósent af Úkraínu og í fjórum héruðum búa um fjórar milljónir manna. Á vef Guardian kemur fram að athöfninni lokinni á morgun muni Pútín hitta þá sem hann mun skipa svokallaða ríkisstjóra í héruðunum.