„Ég er að spyrja mig hér í dag, mun maðurinn minn lifa það af að þurfa að bíða og bíða eftir því að fá lækningu sinna meina,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins sem gerði alvarlega veikindi eiginmanns síns að umtalsefni í umræðum á Alþingi í dag og það hve lengi alvarlega veikt fólk þurfi að bíða eftir þjónustu á sjúkrahúsi.

„Ég er að velta því fyrir mér núna hversu lengi ég á fá að hafa minn vaska, granna, flotta mann hjá mér. Mun hann lifa biðina af þegar meðal hjartsláttur hans er búin að vera 34 til 36 slög á mínútu? Í sennilega hálft annað ár en hann hefur gengið milli Pontíusar og Pílatusar og loksins núna er hann að fá einhver svör en þá kemur í ljós að það er ein aðgerð á dag og tveggja ára bið vegna þess að aðgerðin hans er ein af þeim sem ákveðið var að skera niður núna í aðhaldsaðgerðunum í Covid“.

Inga sagði aðhaldsaðgerðir í heilbrigðiskerfinu bitna á sjúklingunum sjálfum þótt því sé neitað.

Stuttu áður hafði Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG vakið sérstaklega athygli á því að Gallup mældi traust á heilbrigðiskerfinu mikið. „Kerfið fékk einmitt, eða heilbrigðisþjónustan fékk einmitt glimrandi einkunn. 79 prósent landsmanna segjast treysta heilbrigðiskerfinu. Þessi tala hefur hækkað úr 57 prósentum í fyrra, sagði Ólafur Þór.