„Það virðist vera þannig að þeir sem þurfi mest á hjálpinni að halda séu annað hvort ekki inni á Facebook eða finnist erfitt að biðja um hjálp,“ segir Sara Lind Annþórsdóttir, annar stofnandi Facebook hópsins Hjálpum fólki í áhættuhópi.

Sara stofnaði hópinn ásamt Elínu Ástu Finnsdóttur um miðjan síðasta mánuð og er markmið hópsins að létta undir með þeim sem eru í áhættuhópi vegna COVID-19. Í hópnum eru tæplega þrjú þúsund meðlimir sem geta annað hvort boðið fram hjálp sína eða óskað eftir hjálp.

„Mamma mín er í miklum áhættuhópi og hefur rætt það við mig að hún sé smeyk við veiruna, þá fór ég að hugsa um að líklega væru fleiri í hennar sporum. Hún býr í Vestmannaeyjum og ég hér á höfuðborgarsvæðinu svo ég get ekki hjálpað henni eins mikið og ég myndi vilja og hún hefur ekki marga til að hjálpa sér í Eyjum,“ segir Sara.

Hún bjóst ekki við því að hópurinn yrði eins fjölmennur og raun ber vitni en segir magnað að sjá góðvild fólks og samstöðu. „Það eru allir boðnir og búnir að hjálpa. Langflestir sem leita eftir hjálp vantar einhvern til þess að fara í búð fyrir sig,“ segir hún en Sara hefur sjálf farið í allnokkrar búðarferðir fyrir meðlimi hópsins.

„Það er líka algengt að fólk sé að fara í göngutúr með hunda, sérstaklega hunda fólks sem er í einangrun, það er mjög algengt,“ segir Sara og bætir við að fjölmargir hafi tekið að sér að fara út með hund fyrir einstaklinga í einangrun daglega í nokkrar vikur. „Þá er kannski bara ákveðið að manneskjan mæti klukkan fimm á hverjum degi og viðri hundinn,“ segir hún.

Sara segir að töluvert fleiri bjóði fram hjálp sína en óskir eru eftir hjálp. „Það er stór hópur sem hefur bæði óskað eftir hjálp og þegið hana í hópnum en það eru mun fleiri sem hafa boðist til þess að hjálpa.“.

„Okkur grunar þó að hópurinn sem þarf á hjálp að halda sé mun stærri, kannski eru einhverjir sem vita ekki af Facebook-hópnum, eru ekki nettengdir eða þykir óþægilegt að biðja um hjálp. En öllum sem vantar hjálp er velkomið að hafa samband við mig eða Elínu eða fá einhvern til að hafa samband við okkur fyrir sig. Við getum þá komið skilaboðunum inn í hópinn og vonandi hjálpað.“