Píeta sam­tökin, sem sinna for­varnar­starfi gegn sjálfs­vígum og sjálf­skaða, hafa fengið um 200 sím­töl utan skrif­stofu­tíma í júlí­mánuði eftir að sam­tökin opnuðu símann alla stundir sólar­hringsins.

„Við fengum styrk þann 1. júlí frá fé­lags­mála­ráðu­neytinu upp á tvær og hálfa milljón. Við á­kváðum að eyða honum í og prófa að vera með Píeta símann opin allan sólar­hringinn. Við þróuðum það og hann opnaði 4. júlí. Þegar fólk hringir núna er alveg sama á hvaða tíma sólar­hringsins það er, því er svarað,“ segir Kristín Ólafs­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Píeta sam­takanna.

Hún segir að nýji opnunar­tíminn hafi ekki verið aug­lýstur sér­stak­lega en samt hringdu 200 einstaklingar utan vinnutíma. Þessu fólki hefði annars vegar ekki verið svarað en venju­legi opnunar­tími hjá sam­tökunum er frá 9 til 16.

Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta.
Ljósmynd/aðsend

Af þeim 200 sem hringdu utan skrif­stofu­tíma mættu 30 ein­staklingar í við­töl hjá sam­tökunum. Í júlí­mánuði komu alls 280 ein­staklingar í við­töl hjá Píeta sam­tökunum sem er rúm 50% aukning milli ára.

„Það er eitt­hvað að gerast. Þetta er klár­lega mál sem verður að taka al­var­lega“

Hún segir sam­tökin vera með sex mánuði núna tryggða til að halda starf­seminni á­fram með þessum hættu en þau stefna að því að lengja hana enn frekar. „Við ætlum að reyna finna peninga til að reyna að halda á­fram því það er klár­lega þörf á þessari þjónustu,“ segir Kristín en sam­tökin eru al­gjör­lega háð styrkjum.