Hrafnkell Karlsson á Hrauni mun sennilega nota beltagröfu til að draga 30 tonna búrhvalinn, sem rak á land í Þorlákshöfn, og grafa hann í sand.

Hafrannsóknastofnun staðfesti að um búrhval væri að ræða en ekki er óvanalegt að þá reki á land við Suðurland. Edda Elísabet Magnúsdóttir líffræðingur segir að líklega sé um karldýr að ræða en aðallega karlkyns búrhvalir halda til hér við land.

Þá sé ómögulegt að ákvarða aldur dýrsins áður en sérfræðingar hafa mælt lengdina á honum.

Sverrir Daníel Halldórsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir að þegar um dauðan hval sé að ræða sé reglan sú að starfsmenn Hafrannsóknastofnunar fái að gera nauðsynlegar mælingar og taka sýni.

„Annars verður það svo landeiganda að ákvarða afdrif hræsins,“ segir Sverrir.

Hrafnkell Karlsson, bóndi á Hrauni í Ölfusi, er landeigandi en eins og áður kemur fram er um 30 tonna búrhval að ræða og gæti því reynst erfitt fyrir landeiganda að losa sig við hræið.

„Mér er sagt að þetta sé ungur kálfur en þetta er mikið stykki, tugir tonna,“ segir Hrafnkell í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir ljóst að fjarlægja þurfi hvalinn úr fjörunni áður en hann blási út og byrji að lykta. Hvalurinn virðist ekki hafa verið dauður lengi.

Hrafnkell segist aldrei áður hafa séð búrhval stranda á svæðinu en hann minnist þess þegar stór grindhvalavaða hljóp á land á mörkum Hrauns og Þorlákshafnar árið 1986. Þá hafi verið um 30 til 40 grindhvalir í vöðunni. Hópur Færeyinga hafi þá komið og tekið sér bita áður en hvalirnir voru grafnir í sandinn.

„Þeir voru margir lifandi þegar við komum að þeim. Það var átakanlegt. Við skutum þá á staðnum en þá var ekki talið fært að koma þeim út og ekki eins mikill vilji til þess að bjarga þeim. Það hefði þurft mikinn mannskap og báta til að draga þá. Það er svo aðgrunnt þarna,“ segir Hrafnkell en hann mun sennilega nota beltagröfu til að draga búrhvalinn ofar og grafa hann í sandinn eftir nokkra daga.