Bifreiðatryggingar á Íslandi eru að jafnaði þrefalt dýrari en á hinum Norðurlöndunum og segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, að stórvægilegra breytinga sé þörf á þessum markaði.

Ef tekið er mið af hefðbundinni bifreið í fólksbílaflokki á Íslandi kosta tryggingarnar um 150 þúsund á ári, en verð á sams konar tryggingu í Svíþjóð er rétt ríflega 40 þúsund krónur.

Breki segir meginmuninn á bifreiðatryggingum á Íslandi og hinum Norðurlöndunum felast í skaðabótalögunum, en hér á landi séu bætur vegna bifreiðaslysa greiddar út frá 0 til 100 prósenta örorku, en frá 15 til 100 prósenta á hinum Norðurlöndunum, af ástæðu sem rekja má til þess að þar er minni en 15 prósenta örorka ekki talin hafa áhrif á framtíðartekjuöflun. Aftur á móti séu um 70 prósent af bótagreiðslum hér á landi greidd út vegna örorku undir 15 prósentum.

Þetta þarf að skoða að sögn Breka, en Neytendasamtökin vinna að skýrslu um tryggingamarkaðinn á Íslandi. Svo megi skoða norrænu leiðina í þessum efnum, stærsta tryggingafélag Dana, Gensidege, sé í meirihlutaeigu tryggingataka og víðast hvar á Norðurlöndunum bjóði alþýðusamböndin út tryggingar fyrir sína félagsmenn sem ýti verðinu hressilega niður.

„Af hverju ættum við ekki að kaupa tryggingar í félagi í stað þess að gera það hvert í sínu lagi?“ spyr Breki.