Týr Þórarinsson, betur þekktur sem Mummi í Götusmiðjunni, vill að Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, taki mál sitt upp að nýju og hreinsi mannorð sitt eftir ásakanir sem honum voru bornar á hendur árið 2010.

Mummi var meðal annars sakaður um hótunarbrot er Götusmiðjunni var lokað af Barnaverndarstofu um mitt ár 2010.

Þetta kemur fram bréfi sem Gísli Kr. Björnsson, lögmaður Mumma, sendi til fjölmiðla í vikunni.

„Barnaverndarstofa undir forystu Braga Guðbrandssonar og núverandi forstjóra Barnaverndarstofu, Heiðu Bjargar Pálmadóttur, og með liðsinni nokkurra barnaverndarnefnda, lokuðu götusmiðjunni á grundvelli rangtúlkunar og lyga. Var umbjóðanda mínum gefið að sök að hafa hótað börnum í Götusmiðjunni. Ljóst er að rangtúlkun á atburðum réðu för  og mátti forstjóra Barnaverndarstofu vera ljóst að málið þarfnaðist frekari athugunar,“ segir bréfi Gísla.

„Umbjóðandi minn vill sérstaklega benda á, að hótunarbrot er hegningarlagabrot, sem krefst rannsóknar lögreglu. Hér er rétt að taka fram, að enginn, hvorki foreldrar barnanna sem í hlut áttu, barnaverndarnefndirnar né þáverandi eða núverandi forstjóri lögðu fram kæru á umbjóðanda minn um hótun, þrátt fyrir fortakslausa skyldu þar um. Þvert á móti sætti umbjóðandi minn fordæmalausri valdníðslu, sem miðaði að því einu að loka Götusmiðjunni,” skrifar Gísli enn fremur.

Hótað að starfsfólkið fengi ekki laun ef hann skrifaði ekki undir

Í samtali við Fréttablaðið segir Gísli að Mummi vonast til þess að málið verði tekið upp að nýju og lokið í samræmi við stjórnsýslureglur sem var ekki gert á sínum tíma.

„Málinu var lokið með samningi á sínum tíma sem var nauðasamningur fyrir Mumma vegna þess að ef hann hefði ekki tekið þeim samningi hefði starfsfólkið hans ekki fengið laun. Það var svona aðal hótunin í málinu. Þetta var gert til að bjarga launum starfsfólk,“ segir Gísli.

„Hvað varðar ásakanirnar sem Mummi var fyrir þá var þeim þætti aldrei lokið. Hann var ásakaður um hótunarbrot sem hann framdi ekki,“ segir Gísli.

„Hann vill hreinsa nafnið sitt af þessum ásökunum og fá það viðurkennt að hann gerðist aldrei sekur um hótunarbrot,“ bætir hann við.

Í bréfi Gísla segir meðal annars að stuttu eftir lokun Götusmiðjunnar hlutuðust börn sem í hlut áttu um að leiðrétta hinar rangtúlkuðu frásagnir hjá barnaverndarnefndunum sem tóku þátt í ódæði forstjóra Barnaverndarstofu.

Þá hefur sumt starfsfólk einstakra barnaverndarnefnda átt frumkvæði að því að biðja umbjóðanda minn afsökunar á aðkomu sinni að lokuninni, og sagðist hafa verið stýrt af ákafa forstjóra Barnaverndarstofu.

„Að endingu skal það tekið fram, að Mummi í Götusmiðjunni rak gott meðferðarheimili, þar sem hundruð barna hlutu bót sinna meina, ásamt fjölskyldum þeirra. Margir þessara einstaklinga hafa samband við Mumma enn í dag, til að minnast með þökkum hins góða starfs sem Götusmiðjan vann, en var lokað af heift og ákafa forstjóra Barnaverndarstofu, undir formerkjum valdníðslu,” segir í bréfi Gísla að lokum.