Erna Kaaber, kynningarfulltrúi hátíðarinnar lýsir verkum Carpelan sem ótrúlega fallegum og vel gerðum myndum um ævintýraheim Tove Jansson. Þetta er önnur Múmín-myndin frá Carpelan sem einnig leikstýrði kvikmyndinni Vetrarævintýri í Múmíndal frá árinu 2017 sem hlaut ljómandi fínar viðtökur gagnrýnenda. „Þær færa okkur kyrrð og íhygli sem er svo nauðsynlegt í hröðu umhverfi nútímans,“ segir Erna. „Mínir strákar, þriggja og fimm ára gamlir elska sögurnar um Múmíndalinn og íbúa hans. Að sýna þeim þær róar þá frekar en að æsa þá upp, svo að ég er mjög líkleg til að velja þessar sögur þegar þeir vilja sjá barnaefni,“ segir hún glettin.

Erna segist sjálf njóta þess að horfa á myndirnar með börnunum. „Ég er ekki eins spennt fyrir sumu öðru efni sem þeir hafa áhuga á. Ég er til dæmis ekki mikill aðdáandi Hvolpasveitarinnar,“ seigr hún og hlær.

Að sögn Ernu hafa sögurnar um Múmínálfana fylgt henni alla tíð. „Ég hef elskað þessar sögur síðan ég var barn og þó að Snabbi sé einstaklega vel skrifaður karakter hef ég alltaf verið veikust fyrir Hemúlnum og hans hamfaraspám. Það er eitthvað við heimspeking sem hýrist undir brú og horfist í augu við eigin tortímingu og þar með heimsins – sem er dásamlega dillandi,“ segir kynningarstjórinn.

Erna Kaaber er kynningarstjóri RIFF í ár og mikill aðdáandi Múmínálfanna.
Mynd/Aðsend

Erna bætir við að auðvitað elski hún Míu litlu, sem hún lýsir sem dásamlegu hörkutóli, afundinni og úrræðagóðri sem komi alltaf með dásamlegt tvist í söguþráðinn. „Þetta karakteragallerí er bara allt svo skemmtilega hugsaði,“ segir hún. „Meira að segja Fillifjonkan er geggjuð með barnahópinn sinn í strollu!“

Sýningin í Raufarhólshelli er klukkan 16:30 og nánari upplýsingar um miðakaup má nálgast á heimasíðu kvikmyndahátíðarinnar riff.is. Sýningin er meðal árlegra sérsýninga RIFF sem haldnar eru á óvenjulegum stöðum og gefa áhorfendum tækifæri til að njóta kvikmyndamenningar í aðstæðum sem þykja magna áhrif myndanna sem um ræðir. „Á þessum dagskrárlið er lögð áhersla á að para saman viðeigandi kvikmyndir og umhverfi,“ segir Erna. Hún bætir við að sérsýningarnar seljist hratt upp sökum takmarkaðs sætaframboðs. Þetta árið sé sérstætt jarðfræðilegt umhverfi Íslands nýtt til hins ítrasta. Meðal annarra sérsýninga RIFF þetta árið er sýning á heimildarmyndinni „Into the Ice“ eftir Lars Ostenfeld, sem fjallar um bráðnun jökla og hamfarahlýnun. Sýningin er þann 4. október í íshellinum í Langholtsjökli.