„Það er vakt allan sólahringinn hjá okkur og við erum búnir að vera í rauninni í allt sumar með sérstaka athygli á Múlakvísl,“ segir Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfæðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Fréttablaðið.

Fréttablaðið greindi frá því í sumar að jökulhlaup í Múlakvísl væri yfirvofandi. Einar segir mælingar í vor hafa sýnt fram á að það gæti hlaupið undan sigkötlum í Mýrdalsjökli.

Veður­stofan fylgist vel með

Rafleiðni fór aðeins hækkandi í ánni á síðustu vikum sem er vísbending um að hækkandi hlutfall af jarðhitavatni er að berast undan Mýrdalsjökli í ánna. Hún hefur aftur á móti ekki hækkað meira frá fimmtudeginum í síðustu viku.

Jarðhitavatnið er ekki að safnast saman og hlaupa undan jöklinum heldur lekur það hægt og rólega sem er að valda þessari hærri rafleiðni sem er alls ekki óalgengt að sögn Einars.

Einar segir Veðurstofuna vera á því stigi núna að fylgjast vel með en ýmsir mælar eru á staðnum til þess að nema hugsanlegt hlaup.