Muhammeds Zohair Faisal fagnar sjö ára afmæli sínu með vinum og fjölskyldu á veitingastaðnum KFC í dag en á mánudaginn verður hann fluttur úr landi ásamt fjölskyldu sinni. Rúmlega fimm þúsund manns hafa skrifað undir undirskriftalista til að mótmæla ákvörðuninni um senda fjölskylduna til Pakistan.

Faisal og Niha Khan, foreldrar Muhammeds, fluttu hingað til lands árið 2017 en Muhammed hefur sjálfur aldrei átt heima í Pakistan.

Valur Grettisson, vinur fjölskyldunnar sem hefur haldið utan um undirskriftalistann, kynntist fjölskyldunni eftir að sonur Vals, Illugi, og Muhammed kynntust í leikskóla. Hann segir Muhammed vera einstaklega kláran strák sem gat reiknað stærðfræðidæmi fyrir 11 ára börn þegar hann var einungis 5 ára gamall.

„Það er gríðarlega sorglegt að rífa Muhammed úr íslenskum skóla til að setja hann í skólakerfi í Pakistan. Muhammed er miklu meiri Íslendingur en Pakistani,“ segir Valur.

Erfitt fyrir Íslendinga að skilja stöðuna

Faisal og Niha flúðu til Óman eftir að hafa gift sig þvert á vilja fjölskyldu Niha. „Þau urðu ástfangin, giftu sig, eignuðust barn og flúðu,“ segir Valur.

Þau eru bæði háskólamenntaðir viðskiptafræðingar en hafa ekki getað unnið hér á landi í tvö vegna máls Útlendingastofnunar. Hefndarmorð var ekki gert ólöglegt í Pakistan fyrr en árið 2016 en að sögn Vals hefur ástandið ekki batnað mikið. Niha óttast raunverulega líf sitt snúi hún aftur til Pakistan.

„Föðurbróðir hennar er valdamaður í Islamabad og hefur tengsl inn í leyniþjónustu landsins. Þau óttast að hann nái til þeirra,“ segir Valur í samtali við Fréttablaðið. „Það er erfitt fyrir Íslendinga að skilja þessa stöðu.“

Muhammed er nemandi í Vesturbæjarskóla og segir Valur að foreldrar í Vesturbæjarskóla hafa verið drifkrafturinn í þessu máli öllu saman og að þau séu fullkomlega miður sín yfir að missa Muhammed og fjölskyldu.

Nú hafa rúmlega fimm þúsund manns skrifað undir beiðnina. „Það eru fleiri en kusu Pírata, VG og Viðreisn í síðustu borgarstjórnarkosningum. Ef Múhammeð og fjölskylda væru stjórnmálaflokkur í borgarstjórn, væru þau með einn fulltrúa inni,“ segir Valur.

„Þetta er ekki á ábyrgð einnar ríkisstjórnar. Þetta er ábyrgð þjóðarinnar og ríkisstjórna í gegnum árin hvernig málin hafa þróast. En þegar maður er kominn með svona mikið af undirskriftum, þegar maður sér hver vilji þjóðarinnar er, þá spyr maður að lokum: Fyrir hvern er þessi ríkisstjórn að vinna, ef ekki þjóðina?“