Öldungadeild Bandaríkjaþings tók í dag óeirðirnar við þinghúsið þann 6. janúar fyrir á nýjan leik eftir að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var sýknaður fyrr í mánuðinum af ákæru fyrir að hvetja til uppreisnar í tengslum við málið en opinber málflutningur um málið fer nú fram innan deildarinnar.
Þingmenn hófust í dag handa við það að spyrja lögreglumenn þinghússins sem voru viðstaddir út í atburðarásina þann 6. janúar þegar stuðningsmenn Trumps ruddust inn í þinghúsið til að mótmæla niðurstöðum forsetakosninganna. Hundruð manna eru nú til rannsóknar vegna málsins, þar á meðal nokkrir lögreglumenn.
Fyrrum þingvörður fulltrúadeildarinnar, Paul Irving, bar vitni fyrir þinginu í dag þar sem hann sagði að mistök hafi verið gerð þegar hættumatið var gert, þá sérstaklega þegar litið var til þjóðvarðliða en þeir voru ekki kallaðir út fyrir löngu eftir að óeirðirnar hófust. Þá hafi þau ekki verið nægilega vel undirbúin fyrir múginn.
„Við vitum núna að áætlanir okkar voru rangar,“ sagði Irving um ákvörðunina að kalla ekki til þjóðvarðliða fyrir óeirðirnar.
Ekki lögreglunni að kenna
Fyrrverandi lögreglustjóri þinghússins, Steven Sund, var meðal þeirra sem voru spurðir út í daginn en Sund sagði af sér eftir óeirðirnar. „Innbrotið í þinghúsið var ekki afleiðing lélegs undirbúnings eða mistaka til að ná stjórn á mótmælum sem fóru úr böndunum,“ sagði Sund aftur á móti þegar hann sat fyrir svörum í dag.
Sund lýsti óeirðarseggjunum sem glæpamönnum og bætti við að þeir hafi verið „tilbúnir fyrir stríð“ þann 6. janúar.
„Þetta var árás sem við erum að komast að að hafi verið fyrir fram skipulögð, og var framkvæmd af þátttakendum frá ýmsum ríkju sem komu vel undirbúin, skipulögð, og tilbúin til að standa fyrir ofbeldisfullri uppreisn við bandaríska þinghúsið.“
Þrátt fyrir yfirlýsingar Sund hefur lögreglan við þinghúsið verið harðlega gagnrýnd fyrir að vera ekki nægilega undirbúin fyrir daginn, þar sem þingmenn voru saman komnir til að staðfesta atkvæði kjörmanna til forseta, en sterkur grunur var á því að óeirðir myndu brjótast út sama dag.
Næstu daga munu þingmenn ræða við fleiri einstaklinga í tengslum við árásina.
"These criminals came prepared for war," Sund said. "They came with their own radio system to coordinate the attack, as well as climbing gear and other equipment to defeat the Capitol’s security features."
— Karen Piper (@PiperK) February 23, 2021
"I'm sickened by what I witnessed that day."https://t.co/sbZTkwUcsc