Öldunga­deild Banda­ríkja­þings tók í dag ó­eirðirnar við þing­húsið þann 6. janúar fyrir á nýjan leik eftir að Donald Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seti, var sýknaður fyrr í mánuðinum af á­kæru fyrir að hvetja til upp­reisnar í tengslum við málið en opin­ber mál­flutningur um málið fer nú fram innan deildarinnar.

Þing­menn hófust í dag handa við það að spyrja lög­reglu­menn þing­hússins sem voru við­staddir út í at­burða­rásina þann 6. janúar þegar stuðnings­menn Trumps ruddust inn í þing­húsið til að mót­mæla niður­stöðum for­seta­kosninganna. Hundruð manna eru nú til rann­sóknar vegna málsins, þar á meðal nokkrir lög­reglu­menn.

Fyrrum þingvörður full­trúa­deildarinnar, Paul Ir­ving, bar vitni fyrir þinginu í dag þar sem hann sagði að mis­tök hafi verið gerð þegar hættu­matið var gert, þá sér­stak­lega þegar litið var til þjóð­varð­liða en þeir voru ekki kallaðir út fyrir löngu eftir að ó­eirðirnar hófust. Þá hafi þau ekki verið nægi­lega vel undir­búin fyrir múginn.

„Við vitum núna að á­ætlanir okkar voru rangar,“ sagði Ir­ving um á­kvörðunina að kalla ekki til þjóð­varð­liða fyrir ó­eirðirnar.

Ekki lögreglunni að kenna

Fyrr­verandi lög­reglu­stjóri þing­hússins, Ste­ven Sund, var meðal þeirra sem voru spurðir út í daginn en Sund sagði af sér eftir ó­eirðirnar. „Inn­brotið í þing­húsið var ekki af­leiðing lé­legs undir­búnings eða mis­taka til að ná stjórn á mót­mælum sem fóru úr böndunum,“ sagði Sund aftur á móti þegar hann sat fyrir svörum í dag.

Sund lýsti ó­eirðar­seggjunum sem glæpa­mönnum og bætti við að þeir hafi verið „til­búnir fyrir stríð“ þann 6. janúar.

„Þetta var árás sem við erum að komast að að hafi verið fyrir fram skipu­lögð, og var fram­kvæmd af þátt­tak­endum frá ýmsum ríkju sem komu vel undir­búin, skipu­lögð, og til­búin til að standa fyrir of­beldis­fullri upp­reisn við banda­ríska þing­húsið.“

Þrátt fyrir yfir­lýsingar Sund hefur lög­reglan við þing­húsið verið harð­lega gagn­rýnd fyrir að vera ekki nægi­lega undir­búin fyrir daginn, þar sem þing­menn voru saman komnir til að stað­festa at­kvæði kjör­manna til for­seta, en sterkur grunur var á því að ó­eirðir myndu brjótast út sama dag.

Næstu daga munu þingmenn ræða við fleiri einstaklinga í tengslum við árásina.