Ísraelsher beinir nú vopnum sínum að neðanjarðargöngum palestínska hersins í Gaza og undirbýr landher sinn til að ráðast inn í heimastjórnarsvæði Palestínumanna.

Hamas-samtökin í Gaza hafa skotið fjölda flugskeyta í átt að ísraelsku borgunum Tel Aviv, Asdod, Ashkelon og Sderot, eftir linnulitlar loftárásir frá Ísrael, en fæst hafa náð marki sínu þökk sé flugskeytavörnum Ísraels.

Spenna hefur einnig aukist á Vesturbakkanum þar sem Palestínumenn hafa lent í átökum við Ísraelska herinn. Nida Ibrahim, blaðamaður Al Jazeera, segir 34 Palestínumenn alvarlega slasaða.

Múgæsingur hefur myndast víða um Ísrael; Öfga-hægri hópar víða um Ísrael hafa leitað uppi Araba og ráðist á þá. Or Ravid, blaðamaður í Ísrael, birti eftirfarandi myndband, sem sýnir arabískan mann reyna að flýja æstan múg í úthverfi í Tel Aviv. Fólkið náði til hans og var hann barinn nánast til ólífis. Maðurinn liggur þungt haldinn á spítala.

Athugið: Myndband gæti vakið óhug.

Ísraelskir Arabarhópar hafa reynt að svara í sömu mynt að því er fram kemur á BBC, sem hefur það eftir Ísraelskum lögreglumönnum að Ísraelskur gyðingur á þrítugsaldri liggi á spítala með alvarlega áverka eftir að Arabahópar í borginni Acre réðust á hann vopnaðir grjóti og prikum.

Tölum um mannfall ber ekki saman

Blaðamaðurinn Joe Truzman hjá Long War Journal hefur það eftir heimildum sínum innan Ísraelsher að 200 liðsmenn Hamas samtakanna hafi fallið í árásum þeirra. En fréttaveitan Reuters hefur það frá palestínskum herlæknum að 119 hafi fallið í Gaza, þar á meðal 31 börn og 19 konur. Um 830 manns, hluti þeirra óbreyttir borgarar, séu alvarlega slasaðir.

Ísraelar hafa misst átta manns, einn hermann, einn indverskan verkamann og sex óbreytta borgara, þar á meðal eldri konu sem féll á leið í loftvarnarbyrgi og tvö börn að sögn ísraelska yfirvalda.