Bóluefni gegn COVID-19 sem inniheldur mRNA-bút hefur rutt brautina fyrir þróun annarra bóluefna, þar á meðal fyrir HIV, inflúensu, hjartasjúkdóma og krabbamein. Nýtt bóluefni fyrir malaríu, sem byggir á sömu tækni, lofar góðu.

Richard Bucala, prófessor við læknadeild Yale háskólans og einn þeirra sem þróar nýtt bóluefni gegn malaríu, segir að prófanir á músum hafi sýnt fram á að þessi leið veiti bestu vörnina.

Malaría er algengur sjúkdómur í heittempruðum löndum og hitabeltislöndum. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er áætlað að um 300 milljón manns smitist árlega af malaríu og leiðir hún til a.m.k. milljón dauðsfalla á ári hverju. Um 90 prósent dauðsfalla eru meðal barna og verst er ástandið í Afríku sunnan Sahara.

Malaría orsakast af frumdýri af ættinni Plasmodium sem fjölga sér fyrst í lifur en fara síðan út í blóðið og sýkja rauð blóðkorn þar sem kynlaus fjölgun á sér stað. Blóðkornin springa, frumdýrin losna út í blóðrásina og sýkja önnur rauð blóðkorn.

Fjöldi meðferðarmöguleika er fyrir hendi en ónæmi Plasmodium-frumdýra gegn lyfjum er útbreitt vandamál. Bóluefni Bucala mun koma í veg fyrir það vandamál.

Tæknin við þróun RNA-bóluefna er frekar ný og tvö mRNA bóluefni gegn COVID-19 eru fyrstu RNA bóluefnin sem fá neyðarleyfi og skráningu til notkunar í mönnum, það eru bóluefni Moderna og Pfizer.

Eina almennilega bóluefnið sem nú er til við Malaríu, RTS,S, virkar einungis í 30 prósent tilfella en það tók tvo áratugi að þróa það.