Út­skriftar­efni úr Mennta­skólanum í Reykja­vík þurfa að veita upp­lýst sam­þykki um að nafn þeirra megi vera lesið upp við skóla­slit, að þeirra sé getið sem verð­launa­hafa og að nafn þeirra sé á lista braut­skráðra frá skólanum. Rektor skólans segir per­sónu­verndar­lög kveða á um þetta. Forstjóri Persónuverndar er ekki á sama máli.

Nem­endur Mennta­skólans í Reykja­vík fengu tölvu­póst frá stjórn­endum skólans þar sem þeim var upp­lýst að þau þyrftu að veita upp­lýst sam­þykki til skólans „um að nafn hans megi verða lesið upp við skóla­slit, hans getið sem verð­launa­hafa og að nafn hans sé á lista braut­skráðra frá skólanum.“

Elísa­bet Siem­sen, rektor Mennta­skólans í Reykja­vík, stað­festir þetta í sam­tali við Frétta­blaðið. „Þetta eru fyrir­mæli varðandi það að upp­fylla per­sónu­verndar­lög,“ segir Elísa­bet. „Þetta gengur líka út á það að við erum að senda lista og segja hverjir voru efstir og það hefur farið í blöðin og við þurfum að fá upp­lýst sam­þykki fyrir þessu.“

„Þetta er auka vinna sem þarf að vera til þess að allt sé á hreinu. Við erum bara að passa að fram­fylgja þessum per­sónu­verndar­lögum, það er stundum ekki hugsað hvernig þau koma út í praxís,“ segir Elísa­bet.

Elísa­bet segir engan hafa kosið að fá nafnið sitt ekki lesið upp, ef nem­endur svara tölvu­póstinum ekki og veita því hvorki leyfi, né banna að láta lesa nafn sitt upp er haft sam­band við þau og gengið úr skugga um hver ósk þeirra er.

Elísa­bet segir nem­endur hafa verið fljóta að veita sam­þykki, „Eftir klukku­tíma voru 170 af 210 nem­endunum búin að svara og veita sam­þykki,“ segir Elísa­bet.

Per­sónu­vernd ekki gert neina at­huga­semd

Helga Þóris­dóttir, for­stjóri Per­sónu­verndar, segir Per­sónu­vernd ekki hafa gert at­huga­semd við fram­kvæmd út­skrifta og sér ekki á­stæðu til þess að gera það.

„Þetta hefur verið gert alla tíð og aldrei nokkurn tímann verið gerð at­huga­semd við þetta. Þetta er af því er virðist að­eins of þröng túlkun á per­sónu­verndar­lögum,“ segir Helga

Hún segir mis­skilning á lögunum hafa verið al­gengan frá því að nýju per­sónu­verndar­lögin tóku gildi árið 2018. „Þetta hefur að­eins verið að gerast, þetta gerðist mikið þegar nýju per­sónu­verndar­lögin tóku gildi, þau þrengdu sumt og annað var á­fram í gildi eins og hafði verið frá um 2000,“ segir Helga.

„Þetta er engin opin­ber birting sem slík sem um er að ræða. Það er ekkert leyndar­mál hver er í hvaða skóla og þröngum hóp er boðið að mæta,“ segir hún.