Í skýrslu Skipulagsstofnunar um áhrif Fjarðarheiðarganga kemur fram að afnám vetrareinangrunar á Seyðisfirði eigi eftir að hafa verulega jákvæð áhrif á samfélagið en að nokkuð sé um hættulegar breytur sem þurfi að huga að áður en framkvæmdir hefjist.

Sem dæmi um slíkt bendir Skipulagsstofnun á að á framkvæmdatíma sé ákveðin hætta á því að mengunarefni berist frá framkvæmdasvæðinu og spilli vatnsbóli Seyðisfjarðar. Því þurfi að tryggja Seyðfirðingum greiðan aðgang að hreinu neysluvatni áður en ráðist yrði í framkvæmdirnar.

Fjarðarheiðargöng hafa verið í umræðunni í langan tíma en vonir standa til að framkvæmdir hefjist á næstu árum.

Áætlað er að fyrsti fasi verkefnisins, Fjarðarheiðargöngin, kosti um 44 milljarða króna en göngin til Mjóafjarðar og Norðfjarðar kosti samanlagt um tuttugu milljarða.

Í skýrslu Skipulagsstofnunar kemur fram að hætt sé við að aðalvalkostur Vegagerðarinnar af þremur, suðurleiðin, eigi eftir að hafa verulega neikvæð áhrif á gróðurfar. Í því samhengi nefnir Skipulagsstofnun að önnur leið, miðleiðin hefði minnstu umhverfisáhrifin.

Þá telur Skipulagsstofnun að lagfæring á núverandi vegi um Seyðisfjörð hefði minni umhverfisáhrif en lagning nýrrar veglínu sem eigi að liggja meðal annars um golfvöll Seyðfirðinga

Áður en framkvæmdaleyfi verður gefið út telur Skipulagsstofnun að leggja þurfi fram mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifum vegagerðarinnar. Þá verði að framkvæma fornleifarannsókn á endanlegu áhrifasvæði fyrirhugaðra framkvæmda og bera niðurstöðurnar undir Minjastofnun Íslands. n