Móttökubúðir fyrir umsækjendur um vernd líkt og Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur talað um undanfarna daga er ekki stefna ríkisstjórnarinnar, segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Engin tillaga um slíkt hafi verið lögð fram.

„Þannig að ég lít á þetta sem póli­tískar skoðanir. Þeim er auðvitað algjörlega frjálst að hafa sínar pólitísku skoðanir en þetta er ekki stefna mín sem ráðherra sem fer með þjónustu við flóttafólk og þetta er ekki stefna ríkisstjórnarinnar,“ segir Guðmundur Ingi og bætir við að enginn rökstuðningur hafi enn sem komið er fylgt hugmyndinni.

Jón hefur sagt algjört stjórnleysi ríkja hér á landi vegna aukins fjölda umsækjenda um vernd og að við því þurfi að bregðast en Guðmundur Ingi er ekki sammála.

„Ég á svolítið erfitt með að átta mig á því hvar þetta stjórnleysi er og þess vegna finnst mér umræðan svolítið absúrd. Mér finnst hálf hjákátlegt að halda þessu fram þegar mörg önnur ríki standa frammi fyrir mun stærri áskorunum en við,“ segir Guðmundur Ingi.

Stjórnleysið sem Jón tali um tilheyri ekki þeim hluta málaflokksins sem hann stýri. „En ráðherra verður náttúrulega sjálfur að svara fyrir það hvort það sé í þeim hluta sem hann stýrir.“

Guðmundur Ingi segir ráðuneytið og Vinnumálastofnun ekki sjá þörfina fyrir sérstakar móttökubúðir. Hann sjái frekar ókosti við slíkar búðir en kosti. Aðspurður hvort þeir Jón hafi rætt saman um hugmyndina segir Guðmundur Ingi svo ekki vera.

„Hann hefur ekki komið fram með neinar tillögur svo hægt sé að ræða þetta á einhverjum slíkum grundvelli.“

Aðspurður hvort ummæli Jóns hafi komið á óvart segist Guðmundur Ingi ekki viðkvæmur fyrir því að aðrir ráðherrar hafi skoðanir á þeim málaflokkum sem tilheyri honum.

„Ég vil bara undirstrika að þetta er ekki mín skoðun,“ segir Guðmundur Ingi en hann er ekki viss um að móttökubúðir á Suðurnesjum líkt og Jón hefur mælt fyrir sé góð hugmynd.

Aðspurður hvort frumvarp eða lagabreytingar séu í farvatninu, sem varði móttöku umsækjenda um vernd, segir Guðmundur Ingi ráðuneytið vera að hefja stefnumótun í mjög víðtæku samráði þar sem litið er sérstaklega til aðlögunar og inngildingar innflytjenda. Þá sé verið að skoða lög og framfylgd laga á hinum Norðurlöndunum um móttöku og aðlögun innflytjenda. Þegar nánari greining liggur fyrir muni hann taka ákvörðun um framhaldið.