Nokkur fjöldi fólks safnaðist saman á Austurvelli til að mótmæla sóttvarnaaðgerðum í dag. Mótmælin voru skipulögð af Samtökunum frelsi og ábyrgð en þau hafa nú þegar efnt til nokkurra slíkra mótmæla.
Mótmælendur gengu niður Laugarveg með mótmælaspjöld og spiluðu tónlist. Ræðumenn voru Martha Ernstdóttir hlaupari og Ágústa Eva Erlendsdóttir leikkona.

Yfirskrift mótmælanna var „Veljum heilbrigt samfélag og frelsi“ og „Fyrir okkur öll – til verndar mannréttindum.“
Mótmælin voru einnig skipulögð í samstarfi við samtökin Worldwide Demonstration sem hefur gagnrýnt harðlega sóttvarnaaðgerðum og bólusetningum.
Ágústa sagði meðal annars í ræðu sinni að frelsi og sjálfstæði Íslendinga væri ógnað og bar mótmælin saman við búsáhaldabyltinguna árið 2008. Þá setti hún einnig spurningarmerki við gagnsemi bóluefna.
Á skiltum var mikil áhersla lögð á réttinn til að velja hvort einstaklingur fari í bólusetningar en bólusetningar eru valkvæðar á Íslandi, bæði fyrir fullorðna og börn.
