Forseti vísindaráðs Evrópusambandsins hefur sagt af sér í mótmælaskyni við viðbrögð sambandsins við COVID-19 faraldrinum. Mauro Ferrari, prófessor í krabbameinslækningum, tilkynnti Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, ákvörðun sína í gær eftir aðeins fjóra mánuði í starfi.

Ferrari sagði við Financial Times að hann hefði lent upp á kant við framkvæmdastjórnina í byrjun mars þegar hann vissi hversu útbreiddur faraldurinn yrði. „Ég var mikill stuðningsmaður ESB en viðbrögðin við faraldrinum hafa alfarið breytt því þó svo að ég styðji áfram hugmyndafræðina að baki samvinnunni,“ sagði Ferrari.

evrópa.jpg

Janez Lenarcic, yfirmaður hamfaramála ESB.

Ágreiningurinn snýr að því hvernig skipuleggja eigi viðbrögðin. Er það stefna framkvæmdastjórnarinnar að styðja við sjálfstæða vísindamenn og fyrirtæki við leit að bóluefni og öðrum lausnum. Ferrari vill hins vegar að ESB safni saman vísindamönnum og fjármagni þá beint. „Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé ekki tíminn til að hafa áhyggjur af því hvaðan vísindin koma.“ Hyggst hann setja á fót eigið teymi vísindamanna. Framkvæmdastjórnin hefur þegar auglýst stöðuna lausa til umsóknar.

Janez Lenarcic, yfirmaður hamfarastjórnunar ESB, sagði að það hefðu verið mistök að aðstoða ekki Ítali meira þegar faraldurinn breiddist þar hratt út. „Það voru of lítil viðbrögð frá öðrum ríkjum ESB þegar Ítalir báðu um hjálp,“ sagði Lenarcic þegar hann kynnti áætlun um að senda heilbrigðisstarfsfólk frá Rúmeníu og Noregi til Ítalíu. „Allt hefur breyst.“

Tæplega 140 þúsund tilfelli hafa verið staðfest á Ítalíu og 17.669 látið lífið. Dregið hefur úr fjölgun tilfella frá því sem verst var, fjölgaði þeim um rúmlega 3.800 í gær. Yfirvöld á Ítalíu hafa hert þegar strangt útgöngubann af ótta við að landsmenn fari í ferðalög um páskana. Komið hefur verið fyrir vegatálmum og spyr lögregla þá sem eru utandyra hvort þeir séu að heimsækja ættingja. Eiga yfirvöld von á að ekki verði hægt að létta af hömlum fyrr en í árslok.