Öryggis­verðir á rauða dreglinum á kvik­mynda­há­tíðinni á Cannes þurftu að fjar­lægja mót­mælanda sem laumaði sér inn á dregilinn. Mót­mælandinn var hálf nakinn og var búin að mála á sig „Stop raping us“ eða „Hættið að nauðga okkur“ sem lá ofan á úkraínska fánanum.

Sam­kvæmt Twitter færslu franska aktiv­ista­hópsins Scum, var konan að mót­mæla kyn­ferðis­of­beldi sem framið hefur verið á úkraínskum konum eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.

Fjöl­margar fréttir hafa borist af nauðgunum og kyn­ferðis­of­beldi sem rúss­neskar her­sveitir hafa framið í Úkraínu. Í apríl var gefin út yfir­lýsing frá Sam­einuðu þjóðunum þar sem hvatt var til skjótrar rann­sóknar á á­sökunum.

The In­dependent greindi frá því að konan hafi reynt að lauma sér inn á rauða dregilinn á kvik­mynda­há­tíðinni en ekki tekist það. Það var nokkrum andar­tökum síðar þar sem hún hafði klætt sig úr fötunum og komist inn á dregilinn, þar sem henni var síðan fylgt af honum í fylgd öryggis­varða.

Öryggisverðir voru fljótir að fjarlægja konuna af dreglinum.
Fréttablaðið/Getty