Efnt er til mótmæla í annað sinn þar sem krafist er þess að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segi af sér vegna tengsl hans við Samherja.

Þau sem flytja ávörp eru Drífa Snædal, forseti ASÍ, Bragi Páll Sigurðarson, rithöfundur, Þorgerður María Þorbjarnardóttir, frá Ungum Umhverfissinnum, Krakkaveldi og Hemúllinn.

Fundarstjóri er Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins. Erica Bebhardt, frægur sjónvarpsþáttastjórnandi og baráttumanneskja frá Namibíu, sendir sérstaka samstöðukveðju til Íslendinga sem verður lesin upp á mótmælunum.

Síðast mótmæltu rúmlega fjögur þúsund manns og kröfðust þess að Alþingi lögfesti nýja og endurskoðaða stjórnarskrá með auðlindaákvæði sem landsmenn samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012.

Krafist er þess að arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda landsmanna renni í sjóði almennings til uppbyggingar samfélagsins og til að tryggja mannsæmandi lífskjör allra.

„Við þurfum að fá að vita hvort fólkinu, sem stjórnar þessu landi, finnist eðlilegt að sjávarútvegsráðherra sitji enn þá sallarólegur í sínu embætti með allar þessar tengingar við fyrirtækið sem um ræðir,“ segir Katrín Oddsdóttir í samtali við Fréttablaðið.

Eftir fyrri mótmælin sagðist Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, einfaldlega ætla að vinna sína vinnu með sama hætti og áður.

„Það virkar ekki lengur að sitja bara grafkyrr og bíða eftir reiði almennings lægi. Ísland hefur breyst. Við sáum það með Hönnu Birnu. Við sáum það með Sigríði Á. Andersen. Nú er vinnuveitandi ráðherrans, fólkið í landinu að segja að nú sé komið gott og að hann verði að víkja. Við verðum að geta haft trú á kerfinu okkar. Við viljum geta haft trú á því að ráðherra sé að stýra þessu með besta mögulega hætti. Það að hann hringi í Þorstein Má eftir þáttinn til þess að vita hvernig hann hafi það í stað þess að setja af stað allar þær rannsóknir og aðgerðir sem hægt er að gera fyrir hönd íslensku þjóðarinnar er bara merki um það að hann sé ekki rétti maðurinn á réttum stað núna,“ segir Katrín.

Mótmælin hefjast klukkan 14 á Austurvelli en fjölmörg félög standa að baráttufundinum undir yfirskriftinni: „Lýð­ræð­i – ekki auð­ræð­i“. Fleiri félög hafa bæst við hóp aðstandenda frá síðustu mótmælum:

Stjórnarskrárfélagið,
Efling stéttarfélag,
Öryrkjabandalag Íslands,
VR stéttarfélag,
Samtök kvenna um Nýja stjórnarskrá,
Gagnsæi, samtök gegn spillingu,
Ung vinstri græn,
Ungir píratar,
Ungir jafnaðarmenn,
Ungir sósíalistar
og hópur almennra borgara og félagasamtaka.