Hundahald er nú orðið formlega leyft í Reykjavík.
Meirihlutinn í borgarstjórn segist í bókun á síðasta fundi fagna stofnun Dýraþjónustu Reykjavíkur, sem tryggja á aukna dýravelferð auk þess að bæta, einfalda og auka skilvirkni þjónustu við dýr og dýraeigendur. Með stofnun þjónustunnar séu málefni katta flutt frá Meindýraeftirlitinu og Hundaeftirlitið lagt niður.
„Samhliða þessu verður hundahald loksins formlega leyft í Reykjavík, hundagjöld lækkuð um allt að helming þannig að þau verði nú lægst á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem fjárfest verður í betri og fleiri hundagerðum,“ segir í bókun meirihlutans.
Eins og Fréttablaðið fjallaði um í vikunni vonar meirihlutinn að hundaskráningum fjölgi svo kortleggja megi betur hvar flestir hundar eru. Þannig sé hægt að einblína á betri hundagerði. Talið er að gæludýr séu á 40 prósentum heimila í Reykjavík.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir tímaskekkju að sveitarfélag haldi skrá yfir hunda og eigendur þeirra.
„Hundaeigendur standa einir undir öllum kostnaði við dýraeftirlit í borginni“, segir í bókun Kolbrúnar sem kveður hundaeftirlitsgjaldið ekkert annað en refsiskatt sem lýsi fordómum. Mál, þar sem hafa þarf afskipti af hundum, séu sárafá og kvörtunum hafi fækkað mikið. Engu að síður hafi starfsgildum við hundaeftirlit ekki fækkað.
„Mótmælt er alfarið hundaeftirlitsgjaldinu,“ segir Kolbrún.