Tví­tugur svartur karl­maður, Daunte Wrig­ht, var skotinn til bana af lög­reglu í Minnea­polis í gær en maðurinn hafði verið að keyra þegar hann var stöðvaður af lög­reglu. Fjöl­menn mót­mæli brutust út í kjöl­farið við Brook­lyn Center lög­reglu­stöðina og kom til á­taka milli mót­mælenda og lög­reglu í morgun.

Að því er kemur fram í frétt New York Times skaut lög­regla meðal annars gúmmí­kúlum í átt að mót­mælendum sem köstuðu steinum, rusla­pokum og vatns­flöskum að lög­reglu. Borgar­stjórinn Mike Elliot á­kvað í gær að setja á út­göngu­bann til morguns vegna mót­mælanna og fór skóla­hald fram með raf­rænum hætti í dag í for­varnar­skyni.

Áætlað er að Joe Biden Bandaríkjaforseti muni ávarpa þjóðina vegna málsins síðar í dag.

Keyrði stuttan spöl áður en hann lést

Að sögn lög­reglu­stjórans Tim Gann­on var Wrig­ht stöðvaður af lög­reglu vegna um­ferðar­laga­brota og kom síðar í ljós að hand­töku­skipun hafi verið gefin út gegn honum. Hann var að lokum skotinn af lög­reglu þegar hann reyndi að fara aftur inn í bíl sinn en hann keyrði stuttan spöl áður en hann keyrði á annan bíl og lést.

Lög­regla hefur ekki enn gefið út á­stæðurnar að baki hand­töku­skipunarinnar en mögu­legt er að hún hafi verið til­komin þar sem Wrig­ht mætti ekki fyrir dómara fyrr í mánuðinum. Hann hafði þá verið á­kærður fyrir að bera skamm­byssu á til­skilinna leyfa og að flýja lög­reglu síðasta sumar.

Móðir Wright greindi frá því að hann hefði hringt í sig skömmu áður en hann var skotinn þar sem hann sagði lögreglu hafa stöðvað sig þar sem hann var með loftfrískara (e. air freshener) í afturrúðunni.

Réttarhöldin yfir Chauvin skammt frá

Mikil spenna hefur verið í Minnea­polis undan­farnar vikur en réttar­höld yfir Derek Chau­vin, fyrr­verandi lög­reglu­manns sem er á­kærður fyrir að hafa orðið Geor­ge Floyd að bana í fyrra, fara nú fram í borginni. Floyd, sem var svartur karl­maður, lést við hand­töku þar sem Chau­vin kraup á hálsi hans í rúmar níu mínútur.

Réttar­höldin yfir Chau­vin fara nú fram skammt frá mót­mælunum í Brook­lyn Center. Lög­maður Chau­vin bað dómara í dag um að koma í veg fyrir að kvið­dómarar gætu fylgst með fréttum af mót­mælunum og færði rök fyrir því að kvið­dómurinn gætu litið sem svo á að frekari mót­mæli myndu brjótast út ef Chau­vin yrði ekki sak­felldur. Dómarinn féllst ekki á kröfu lög­manna.

Á­ætlað er að mál­flutningi ljúki síðar í dag og í kjöl­farið munu kvið­dómarar ráða ráðum sínum.