Mót­mælendur söfnuðust saman sjöunda daginn í röð eftir að Geor­ge Floyd, 46 ára svartur karl­maður, lést eftir að lög­reglu­maður kraup á hálsi Floyd í rúmar átta mínútur. Lögreglumaðurinn hefur nú verið ákærður, líkt og mótmælendur kölluðu upprunalega eftir, en það hefur ekki reynst nóg.

Mikil reiði er meðal Banda­ríkja­manna vegna dauða Floyd í Minnea­polis í síðustu viku en stjórn­lausar ó­eirðir eru nú víðs vegar í Banda­ríkjunum vegna málsins. Fjölmargir hafa særst og jafnvel látist í mótmælunum auk þess sem fleiri hundruð manns hafa verið handteknir.

Beitti táragasi fyrir myndatækifæri

Donald Trump Banda­ríkja­for­seti hefur for­dæmt mót­mælin en þeim hafa fylgt tölu­verð skemmdar­verk. Trump á­varpaði þjóðina í gær­kvöldi og hét því að senda út her­menn til að ná stjórn á mót­mælendunum ef ríkis- og borgar­stjórum tækist það ekki. „Ég er for­seti ykkar og ræð lögum og lofum,“ sagði Trump meðal annars í á­varpi sínu.

Hópur fólks sem mót­mælti frið­sam­lega fyrir utan Hvíta húsið var tvístrað fyrir á­varpið með gúmmí­kúlum og tára­gasi. Margir hafa gagn­rýnt Trump fyrir að hafa beitt valdi gegn frið­sam­legum mót­mælendum en öldunga­deildar­þing­maðurinn Kamala Har­ris sagði Trump hafa skotið tára­gasi að mót­mælendum fyrir mynda­tæki­færi.

Útgöngubann sett á víða

Líkt og áður hefur verið greint frá er nú út­göngu­bann í gildi í fjöl­mörgum borgum Banda­ríkjanna, til að mynda í Was­hington DC, þar sem sjá mátti þyrlu sveima yfir hópi mót­mælenda, og í Man­hattan þar sem fólk fór ráns­hendi um verslanir í mið­bænum. Þá hefur Þjóð­varð­liðið verið ræst út í að minnsta kosti 23 ríkjum vegna á­standsins.

Í nokkrum borgum fengu í­búar að­eins nokkrar klukku­stundir eða jafn­vel mínútur áður en út­göngu­bannið tók gildi og voru því margir sem ekki tóku þátt í mót­mælunum fyrir tára­gasi eða gúmmí­kúlum.

Heimsbyggðin tekur þátt

Dauði Floyd hefur þó ekki að­eins vakið reiði í Banda­ríkjunum heldur hefur fjöldi fólks víðs vegar í heiminum mót­mælt að­gerðum lög­reglu en þúsundir hafa til að mynda safnast saman í Amsterdam, Rio de Janeiro, París og London. Þá hefur verið boðað til frekari mót­mæla víða, til að mynda hér á Ís­landi.

Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, er meðal þeirra hátt settu embættismanna sem hafa gagnrýnt aðgerðir lögreglu í Bandaríkjunum en hann sagði dauða Floud vera misbeitingu á valdi. „Við styðjum réttinn til friðsamlegra mótmæla, auk þess sem við fordæmum hvers kyns ofbeldi og rasisma,“ sagði hann meðal annars.