Hópur fólks er að skipuleggja mótmæli á næstu dögum þar sem brugðist verður við fyrirhuguðum fjöldabrottvísunum hælisleitenda hér á landi.

Sema Erla Serdar, formaður Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, segir það engri manneskju sæmandi að sópa fólki héðan til Grikklands. Á sama tíma séu breytingar á lögum í bígerð sem muni útiloka enn frekar að stór hópur fái hæli hér.

Sema Erla Serdar, formaður Solaris.

„Það er hrikalegt að það eigi bara að flytja fólk héðan í hrönnum. Sennilega eru fleiri lönd í svipuðum hugleiðingum og við. Hvernig eiga Grikkir að geta tekist á við slíka viðbót, aðstæður Grikkja eru nógu slæmar fyrir?“ segir Sema.

Ríkislögreglustjóri brást í gær við forsíðufrétt Fréttablaðsins um hrinu brottvísana fram undan. Í tilkynningu frá embættinu segir að 250 útlendingum hafi verið synjað um alþjóðlega vernd hér á landi undanfarið. Hafi sá hópur safnast upp og dvelji enn hér á landi. Ekki hafi verið hægt að frávísa þeim vegna atriða sem tengjast Covid.

„Þeim sem fengið hafa synjun um alþjóðlega vernd er nú boðið að yfirgefa landið sjálfir, en þeir sem ekki þiggja það boð munu fara í fylgd lögreglu,“ segir ríkislögreglustjóri.

Á árinu hafa 1.586 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd hér á landi, þar af 1.027 einstaklingar frá Úkraínu.